144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áfram heldur spuninn og tvískinnungurinn. Því er haldið fram að síðasta ríkisstjórn hafi landað mörgum verkefnum á sviði orkufreks iðnaðar. Þetta er reyndar eina verkefnið sem varð og er að verða að veruleika núna. Það er ágætt að rifja upp stöðugleikasáttmálann í þessu samhengi, hverju lofað var þar og hvað var svikið, virkjunarframkvæmdum, verkefnum á sviði orkufreks iðnaðar, þetta sneri fyrst og fremst að því. En hverjar voru efndirnar? Þær lágu fyrst og fremst í verkum þáverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem kom í veg fyrir að slík uppbygging gæti átt sér stað með embættisfærslum, sem var síðan dæmd fyrir í Hæstarétti að misbeita valdi sínu. Það er fyrst og fremst það sem hefur tafið að þessi verkefni geti haldið áfram, vegna þess að samkvæmt niðurstöðu rammaáætlunar um ramma 2 var reiknað með því af verkefnisstjórn þá að virkjanirnar Holtavirkjun og Hvammsvirkjun yrðu gangsettar á árunum 2015 og 2016, þ.e. í ár og á næsta ári, þá væri sem sagt búið að byggja þær upp ef embættisfærslur hæstv. fyrrverandi ráðherra hefðu ekki átt sér stað með þeim hætti sem vitað er.

Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur misskilið mig hrapallega áðan ef hann var eitthvað að tala um það að ég teldi að Ísland væri eina landið sem hefði endurnýjanlega orkugjafa. Nei, það er sko alls ekki svoleiðis, en Ísland er eitt af fáum löndum sem á svo mikil tækifæri í endurnýjanlegum orkugjöfum sem raun ber vitni. Þess eru fá dæmi og sennilega engin í Evrópu. Nægir þar að vitna til orða Görans Perssons á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins um daginn þar sem hann fór vandlega yfir þennan þátt, og fyrrverandi orkumálaráðherra Breta gerði á öðrum fundi nokkru síðar. Nei, það sem ég átti við áðan var að þeir sem virkilega kenna sig við græna stefnu ættu að fagna því að ál væri framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum hvar sem væri í heiminum en ekki kolaverum eða öðru slíku, vegna þess að álið hefur mjög grænt spor. En það er auðvitað hægt með tvískinnungshætti (Forseti hringir.) og spuna að reyna að afvegaleiða fólk í þeim staðreyndum.