144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki annað hægt en að finnast áhugavert að hlusta á orðaskipti hv. þm. Jóns Gunnarssonar og hv. þm. Helga Hjörvars. Hér var upplýst að einu stóriðjuflokkarnir á Íslandi eru Vinstri grænir og Samfylkingin. Hér kom fram sú gagnrýni að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur geti ekki gert nokkurn skapaðan hlut þegar kemur að stóriðju. Einu flokkarnir sem eitthvað hafa gert í því að koma stóriðjunni af stað eru Samfylkingin og Vinstri grænir og ekki orð um það meir. (KaJúl: Heyr, heyr.) Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kallar hér fram í „heyr, heyr“ yfir þessum orðum mínum. Ég held að þetta samrýmist eiginlega mjög vel því sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði um tvískinnunginn.

Ég var í borgarstjórn Reykjavíkur og hverjir fóru með Orkuveitu Reykjavíkur og stóriðjuna? Það voru Vinstri grænir og Samfylkingin. Orkuveitan hafði aldrei komið nálægt neinu slíku áður en þessir flokkar komu til valda. Það er áhugavert að hlusta á orðræðuna hér um stóriðjuflokkana, sem eru reyndar ekki lengur Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eftir þessi orðaskipti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kallar „heyr, heyr“ og hv. þm. Helgi Hjörvar fór sérstaklega yfir það að stóriðjuflokkarnir eru Vinstri grænir og Samfylkingin. (Gripið fram í.) En það er samt svolítið sérkennilegt að í þessu tilliti má bara fara í stóriðju þannig að skattgreiðendur komi að því í mjög stórum mæli og ég ætla að fara aðeins yfir það á eftir.

En af því að ég var spurður að því, að vísu undir óhefðbundnum lið fyrir slíkt, af hverju ég kallaði Bjarta framtíð dauft ljósrit af Samfylkingunni þá skal ég glaður fara yfir það. Ég vona að það komi skýrt fram að ég var að tala almennt um Bjarta framtíð, alla hv. þingmenn Bjartrar framtíðar nema hv. þm. Óttar Proppé sem ég tel ekki vera á þeim stað, en aðra hv. þingmenn og kannski sá nýi sem ég verð að viðurkenna að ég man ekki nafnið á, það er ekki komin reynsla á þann viðkomandi hv. þingmann sem ég biðst velvirðingar að muna ekki nafnið á. (Gripið fram í: Eldar Ástráðsson.) Hv. þm. Eldar Ástráðsson, ég skal viðurkenna að ég hef ekki séð svo mikið til hans. Þegar Björt framtíð kom inn þá hlustaði ég eftir því að þar var talað út frá ákveðnum sjónarmiðum, talað um ný vinnubrögð, sérstaklega í umræðum í þinginu, það átti ekki að fara í málþóf og annað slíkt. Það gekk eftir í ákveðinn tíma en síðan hafa þeir algerlega orðið eins og Samfylkingin og Vinstri grænir, nákvæmlega eins, enginn munur. Reyndar eru þeir farnir að ganga lengra eins og kom fram áðan. Nú geri ég enga athugasemd við það að fá á mig gagnrýni, ef ég segi eitthvað þá má alveg gagnrýna mig fyrir það, ekkert að því, ég þarf að standa við það sem ég segi, ekkert að því, sjálfsagt og eðlilegt. En að koma hér upp undir liðnum um fundarstjórn forseta þegar menn vita að ég er á mælendaskrá og það er hægt að nota öll þau tækifæri, þegar hv. þm. Bjartrar framtíðar eru farnir að nota þann lið til þessa þá eru menn að ganga miklu lengra en þeir hafa gert áður í þessum málþófsæfingum og ég fór ágætlega yfir það áðan.

Það sem snýr líka að því að Björt framtíð sé bara ljósrit af Samfylkingunni í hv. fjárlaganefnd þá hefur Björt framtíð talað, alla vega fyrst, mjög mikið fyrir aga í ríkisrekstri, breyttum vinnubrögðum og öðru slíku. Og ég hélt að hv. þingmenn Bjartrar framtíðar væru að meina það þegar þeir sögðu það. Þeir hafa gagnrýnt okkur til dæmis, talið að við værum ekki að fylgja eftir því sem við höfum talað fyrir. Það er bara eðlilegasta mál í heimi, við þurfum að standa við það sem við segjum og maður leggur við hlustir þegar er talið að maður sé ekki að gera það. En svo ber við, að vísu var fulltrúi þingflokks Bjartrar framtíðar í fjárlaganefnd með sértillögu fyrst sem var svolítið sérkennileg í fjárlagagerðinni, en ég ætla ekki að fara yfir það núna, að þeir hafa síðan algerlega klesst sig við, eða við skulum ekki nota það orðalag, við skulum segja að þeir hafi staðið algerlega þétt með Samfylkingunni og Vinstri grænum, meira að segja þegar kom að málinu um opinber fjármál. Við erum búin að halda 25 fundi um það mál á þessum vetri, við erum búin að fara í eina utanlandsferð til að kynna okkur þetta, síðasta hv. fjárlaganefnd gerði það líka, og erum búin að vinna þetta eins vel og hægt er. (Gripið fram í: Við erum að tala um Bakka.) Þeir fóru hins vegar ekki … (Gripið fram í: … málþóf?) Nú kom ég við kaunin á hv. þingmanni, varaformanni Samfylkingarinnar, sem bað sérstaklega um það að ég mundi ræða þetta mál hér áðan, bað sérstaklega um það og nú er verið að gera athugasemd. (Gripið fram í.) Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir er tvískinnungurinn holdi klæddur því hv. þingmaður kvartaði undan því að ég hefði gagnrýnt hv. þingmenn Bjartrar framtíðar áðan án þess að þeir gætu svarað fyrir sig, auðvitað geta þeir gert það seinna, fór síðan í andsvar við þingmann og réðst á mig og ég mátti bara bíða eftir því, (Gripið fram í.)sem ég ætla að gera, til að fara yfir þau mál. Eðli málsins samkvæmt fór ég ekki í fundarstjórn forseta til að gera það. En meira að segja frumvarp um opinber fjármál treysti hv. þingmaður Bjartrar framtíðar sér ekki til að styðja, ekki einu sinni að styðja að það væri tekið út úr nefndinni þó að það væri algerlega fullrætt. Það kemur mjög skýrt fram að það var fullrætt í bókun minni hlutans sem hv. þingmaður Bjartrar framtíðar skrifaði undir þar sem engin efnisleg gagnrýni kom fram á frumvarpið. Þegar það er engin efnisleg gagnrýni þá eru menn komnir á einhvern sérstakan stað ef þeir eru á móti því að mál sé tekið út sem þeir segjast vera sammála.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, í andsvari við annan þingmann, talaði hér sérstaklega um mig og ég gat eðli málsins samkvæmt ekki blandað mér í það, við þekkjum þingsköpin, og talaði um að það væri skrýtið að ég væri að ræða þetta Bakkamál vegna þess að ég hefði greitt atkvæði með því. Kannski hefði ég átt að skoða það mál betur, það var að vísu ekki í þeirri nefnd sem ég var í, en kannski hefði ég átt að vera búinn að læra það að maður átti bara aldrei að samþykkja mál sem komu frá síðustu ríkisstjórn. En stundum taldi maður að það væri nú þess virði að gera það. Hér er um að ræða atvinnuuppbyggingu eins og bent hefur verið á og ég var ekki búinn að gera mér grein fyrir því, ég skal viðurkenna það, ég tek það á mig, hversu illa var að málinu staðið. Það er augljóst að við í hv. fjárlaganefnd, við skulum vera nákvæm, meiri hluti fjárlaganefndar hefur gengið lengra í því með fjárlögunum en gengið hefur verið áður og ég hef ekki séð stuðninginn frá stjórnarandstöðuflokkunum í því efni. Ég hef ekki fundið fyrir honum. Þvert á móti hafa verið gerðar athugasemdir við það, af því að ég var starfandi formaður fjárlaganefndar, þegar ég tók þessi mál upp út af einhverjum ástæðum sem ég man ekki hverjar voru. Og þar er ég aftur kominn að gagnrýni minni varðandi þingmenn Bjartrar framtíðar að þeir væru eins og ljósrit af Samfylkingunni því að maður hefði ætlað það miðað við orðræðuna hjá Bjartri framtíð að þeir væru algerlega með okkur hvað þetta varðar.

Hér er um að ræða að það var bara ákveðið eins og komið hefur fram að setja 1,8 milljarða, 1.800 millj. kr., í göng og það var ekki búið að kanna hvað göngin kostuðu. Stóriðjuflokkunum, Vinstri grænum og Samfylkingunni, lá svo á að þeir könnuðu ekki aðstæður. Það sem við getum lært af því er að svona á ekki að vinna, enda kemur í ljós að göngin eru miklu dýrari, kostnaðurinn er 70% hærri. Og mér sýnist að annaðhvort verðum við að hætta við eða að kyngja þessu en framlag skattgreiðenda í þessu stóriðjuverkefni stóriðjuflokkanna VG og Samfylkingarinnar er náttúrlega gríðarlega hátt, m.a. vegna þess að menn undirbjuggu það ekki nógu vel. Ég veit ekki hvort þeir hefðu getað komið í veg fyrir það með því að undirbyggja það betur, en við breytum þessum ekki núna. Það er ekki bara þetta verkefni heldur var undirbúningi líka ábótavant í Vaðlaheiðargöngum og hvort tveggja er forsenda fyrir þessari stóriðjuuppbyggingu hjá stóriðjuflokkunum VG og Samfylkingunni. Við breytum þessu ekki. Það er annaðhvort að hætta við þetta allt saman eða þá að menn vinna úr því sem komið er og mér heyrist að það sé almennur samhljómur um það. Og það er svolítið áhugavert að hér koma hv. þingmenn VG, (Gripið fram í.) þeir eru mjög áfjáðir í að klára þetta verkefni en reyna að gera öll önnur verkefni tortryggileg. Ég veit ekki af hverju það er. Hér var farið yfir það að það hefði hugsanlega eitthvað með heimilisfesti að gera, hvort menn væru fulltrúar viðkomandi kjördæma en látum það liggja á milli hluta.

Ég tel að núna þegar við erum á þessum stað þá eigum við að gera það sem við getum til að bæta málið og gera alla vega ekki fleiri mistök. Þess vegna tek ég undir það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór yfir varðandi umsögn frá fjárlagaskrifstofunni á sínum tíma þegar málið var í vinnslu og sneri að því hvar þetta mál ætti í raun að vera. Ég beini því til hv. atvinnuveganefndar að hún skoði það mál sérstaklega. Það kemur mjög skýrt fram þegar maður er að fjalla um þetta mál og við höfum haft frumkvæði að því í hv. fjárlaganefnd að fara yfir þetta mál þar að málið er mjög munaðarlaust og það bendir hver á annan. Það er ákveðin kaldhæðni í því þegar við erum með tvö stærstu samgöngumannvirki landsins að þau eru ekki undir innanríkisráðuneytinu sem fer með samgöngumál. (VigH: Gríska leiðin.) Ég held að það sé gott fyrir okkur að fara yfir stöðuna og af hverju þetta er til komið til að reyna að læra af þeim mistökum sem augljóslega hafa verið gerð, en á sama tíma megum við ekki gleyma því að við getum hugsanlega gert eitthvað til að laga málið. Ég hvet hv. atvinnuveganefnd til að fara yfir þennan þátt málsins því mér sýnist það verða til bóta ef við förum eftir umsögn fjárlaganefndarinnar.