144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef almennt mjög mikinn áhuga á stjórnmálum, ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum, og ég veit ekki af hverju ég má ekki ræða aðra stjórnmálaflokka. Ég vissi ekki til þess að það væri sérstaklega bannað. Og nú var sérstaklega kallað eftir því að ég útskýrði þau orð sem ég hafði um flokkinn og ég fór þess vegna sérstaklega yfir þau og rökstuddi það af hverju ég kallaði Bjarta framtíð ljósrit af Samfylkingunni. Ef það er lítilsvirðing í því — það má að vísu færa rök fyrir því að það sé ákveðin lítilsvirðing en mér finnst það hins vegar ekki vera stóryrt (Gripið fram í: Er þetta einelti?) miðað við það sem gengur á hér. Og hér kallar fram í hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem ég hef oft gagnrýnt þótt ég hrósi honum oft líka. (Gripið fram í.)

Það sem ég hef haldið fram og það sem ég er að benda á af því að mér finnst það skipta máli er að vinstri flokkarnir skipta um kennitölu mjög reglulega í íslenskum stjórnmálum, sem er svolítið sérstakt miðað við það sem gerist í öðrum löndum. Það er skipt um nafn og kennitölu og hv. þm. Össur Skarphéðinsson þekkir það betur en flestir (ÖS: Hvað á þingmaðurinn við?) enda hefur hann farið nokkuð víða þegar kemur að íslensku flokkakerfi og þekkir þetta vel af eigin raun vegna veru hans í hinum ýmsu flokkum. Ég held því fram að hér sé alltaf gamalt vín á nýjum belgjum. Ég held að þetta breytist ekkert þótt menn fari í nýja flokka og ég held að það sé nákvæmlega það sama með Samfylkinguna. Þetta er bara venjulegur vinstri flokkur. (ÖS: Hvar er Elsa Lára núna?) Ég heyri að hv. þm. Össuri Skarðhéðinssyni finnst það ekki gott sem ég er að segja, en ég stend við það hvar og hvenær sem er. (Gripið fram í.)

En ef hv. þingmaður sem fór í andsvar við mig hefði hlustað á ræðu mína þá fór ég sérstaklega yfir það að bent hefði verið á það að ég hefði greitt atkvæði með og ekki tekið þátt í umræðunni og ég baðst velvirðingar á því að hafa treyst ríkisstjórninni í þessu máli. Ég var ekki í hv. atvinnuveganefnd á þessum tíma og það kom fyrir í fleiri málum en þessum að ég greiddi atkvæði með fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn og taldi hana hafa unnið málið svona þokkalega. Það var ekki rétt í þessu máli og ég verð bara að sitja uppi með það. (ÖS: Þú varst leiddur á glapstigu, meinarðu?)