144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frumvarp sem flutt er af meiri hluta atvinnuveganefndar af þeirri nauðsyn að komið hefur í ljós að ákveðnar framkvæmdir vegna uppbyggingar á Bakka í Norðurþingi verða dýrari en ætlað var, þ.e. að gera jarðgöng í staðinn fyrir veg yfir Húsavíkurhöfða í gegnum höfðann vegna þess að það er talið miklu betra en að fara hefðbundinn veg og þar kominn inn í halli og fleira. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið vegna þess að ég veit að halda á fund með formönnum þingflokka klukkan sjö. Ég ætla þess vegna að fara örlítið í gegnum þetta og vonast til þess að ég fari ekki að æsa menn til frekari umræðu.

Ég ætla aðeins að segja þetta. Það var í raun og veru óvenjulegt sem gert var árið 2013, en þó líka til fyrirmyndar, þegar gerður var ívilnunarsamningur vegna framkvæmda við Bakka með þeim sjálfsagða fyrirvara að af framkvæmdum yrði og að ekkert yrði úr þessum ívilnunarsamningi nema væri búið að skrifa undir framkvæmdir. Nú er það loksins búið. Þetta er óvenjulegt vegna þess að stundum hefur þetta gerst sem síðasta stig í áformum um uppbyggingu atvinnu eða atvinnufyrirtækja, alveg sama hvar er á landinu, þá hefur ríkið komið síðast. Þetta var mikið og gott ljós, við getum sagt leiðarljós, fyrir þá sem voru að vinna að þessari uppbyggingu, þ.e. framkvæmdaraðila, sveitarfélög og aðra. Eftir því hefur verið unnið. Auðvitað höfðu menn þá ósk að framkvæmdir byrjuðu miklu fyrr, en það tókst ekki og fyrir því eru ýmsar ástæður. Ég hef sagt að það sé meðal annars vegna þess að viðsemjandinn eða framkvæmdaraðilinn eru Þjóðverjar og þeir eru mjög skipulagðir og vinna mjög markvisst. Þess vegna var það ekki nema fyrir nokkrum dögum síðan, virðulegi forseti, sem ljóst var að af verkinu yrði. Þegar þetta var gert árið 2013 var sett inn sú tala sem hefur verið umtalsefni hér, þessar 1.800 milljónir, miðað við verðlag í lok 2012, sem reikna má sem 2.000 núna eða 2.100 milljónir, en nú hefur komið í ljós við frekari hönnun jarðganganna að þau verða dýrari. Auðvitað ber að harma það eins og öll framkvæmdarverk sem verða dýrari en menn höfðu óskir um. Það getur vel verið að það hafi verið þannig á fyrstu stigum að menn hafi tekið töluna sem einn kílómetra í venjulegum jarðgöngum og sett það inn.

Ég minni á það og vil leggja áherslu á að í samgönguáætlun núna, sem liggur fyrir þinginu, og í langtímaáætlun eru alltaf settar inn slíkar tölur. Ég get tekið eitt dæmi af jarðgangaframkvæmd og það eru Seyðisfjarðargöng, sem fara vonandi í framkvæmd á næstu árum, til þess að taka af þann slæma fjallveg. Þar eru svona tölur settar inn og það er ekkert óeðlilegt við að ekki sé eytt miklum fjármunum í undirbúning verks fyrr en að framkvæmd kemur eða nokkrum árum áður, ekki síst ef menn telja að ekki verði af framkvæmdinni, þá vilja þeir ekki eyða miklum peningum, hvorki í rannsóknir, hönnunarvinnu né annað. En það ber að sjálfsögðu að harma að þetta sé svona. Ég hef hlustað á rök Vegagerðarinnar, þeir komu fyrir atvinnuveganefnd, og þau rök finnst mér vera þannig að Vegagerðin getur alveg staðið upprétt hvað það varðar. Það hafa komið í ljós atriði sem menn héldu að þyrfti ekki að taka tillit til og síðan hefur verðlag auðvitað hækkað.

Virðulegi forseti. Vegna þess að það var nokkuð mikil sátt um þetta mál á sínum tíma, til atvinnuuppbyggingar, þá vona ég að það verði hérna líka. Ég get sagt rétt að lokum, því að ég ætla að standa við það að hafa ræðuna stutta svo hægt sé að ljúka umræðum, að ég hreyfði þeim vangaveltum, sem hefur verið rætt um hér meðal annars af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að gera þyrfti skýrari skil milli atvinnuvegaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins fyrir hönd Vegagerðarinnar, vegna þess að ég er algjörlega sammála því og sagði það í nefndinni að auðvitað á að gera samning við Vegagerðina um að Vegagerðin verði framkvæmdaraðili, eftirlitsaðili og sjái um allt verkið. Hún er langbest til þess fallin með sérfræðinga sína og allt það teymi sem hún hefur við slíka framkvæmd. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga, virðulegi forseti.

Ég segi fyrir mitt leyti að komi það til að þetta frumvarp komi til nefndarinnar milli 1. og 2. umr. mun ég halda þeim sjónarmiðum uppi, vegna þess að ég tel þetta rétt. Eins og ég segi er enginn betur til þess fallinn en Vegagerðin að sjá um þetta verk, eftirlitið og allt saman. Þetta var vistað í atvinnuvegaráðuneytinu vegna þess að menn vildu ekki blanda því saman við samgöngur, bætur, hefðbundnar samgönguframkvæmdir á vegum innanríkisráðuneytisins, les samgönguáætlun/vegagerð, þess vegna var þetta vistað þar. Ég ætla ekki að halda áfram umræðu um það að atvinnuvegaráðuneytið eigi að beita sér fyrir því og gera samning, hvort sem er við innanríkisráðuneytið eða Vegagerðina eða fela Vegagerðinni þessa framkvæmd. Ég vona að full sátt geti verið um það. Ég ítreka enn og aftur að Vegagerðin er best til þess fallin og hefur mestu þekkinguna.