144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

loftslagsbreytingar.

[10:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Verði þessi markmið kynnt í ríkisstjórn í næstu viku þá vil ég leggja áherslu á það að hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hv. utanríkismálanefnd fái kynningu á þeim á sama tíma þannig að hv. þingmenn séu upplýstir um markmiðin.

Ég vil hins vegar segja það hér að vissulega getur hver og einn einstaklingur lagt sitt af mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum en á þessu máli verður ekki tekið nema ríkisstjórnir heimsins komi sér saman um róttækar aðgerðir. Það verður ekki lagt á hvern og einn að bera ábyrgð á því hvert stefnir í loftslagsbreytingum á heimsvísu og þar þarf miklu róttækari aðgerðir en við höfum séð hingað til lagðar til. Við þurfum að horfast í augu við það að stjórnvöld þurfa að stíga fram með sitt frumkvæði að því að hér verði til að mynda orkuskipti í öllum samgönguflotanum. Það verður ekki gert með mildum hvötum, svo ég segi það, við erum búin að reyna þær aðferðir árum saman. Ef við ætlum að taka mark (Forseti hringir.) á þeim vísbendingum sem koma fram árlega þá hvet ég hæstv. ráðherra til þess að þau markmið sem verða kynnt í næstu viku verði róttæk(Forseti hringir.) þannig að við getum átt von á að þau skili einhverjum árangri.