144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

makrílfrumvarpið.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst aðeins varðandi stöðuna í þinginu. Ég er þeirrar skoðunar að gengið hafi mjög hægt að afgreiða og koma áfram tiltölulega einföldum málum, óeðlilega hægt. Mér finnst skrýtið ef menn kannast ekki við að það sé vegna þess að ágreiningur hafi verið um einhver önnur mál. Það hefur verið mikill ágreiningur um mál, til dæmis um tillögu atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Það hefur farið verulegur tími í það hér í þinginu vegna þess að menn vildu ekki hleypa því máli í atkvæðagreiðslu. Menn verða bara að kannast við það. Menn verða að kannast við þær aðferðir sem þeir beita í þinginu til að ná áhrifum. Mér finnst dálítið aumt ef menn vilja ekki kannast við það. Ég hef gengist við því að við í stjórnarandstöðu beittum öllum brögðum til þess að hindra samþykkt Icesave-samninganna á sínum tíma og eins líka að menn mundu fótumtroða langa venju við breytingar á stjórnarskránni o.s.frv. Ég hef alveg kannast við það. En hérna koma menn alltaf alveg hvítþvegnir og vilja ekki kannast við það að menn hafi verið að tefja þingstörfin. Það er alveg með ólíkindum. 2.500 ræður um fundarstjórn forseta. Það er nýtt met. (SII: Og þær verða fleiri.) Þær verða fleiri. (BirgJ: Svaraðu nú spurningunni.) (Forseti hringir.) Ég segi bara að það er meðal annars út af svona vinnubrögðum sem virðing þingsins hefur dvínað, eða til þingsins.

Varðandi þetta tiltekna mál ætla ég að byrja á því að segja. Það er misskilningur að hægt sé að gera samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og við Framsóknarflokkinn hins vegar um það hvernig þinginu lýkur. Það er stjórnarsamstarf í gangi og þetta eru ríkisstjórnarmál sem hafa farið í gegnum báða stjórnarflokkana, það er ekki hægt að gera samkomulag sitt á hvað. Ef það er ekki samkomulag um heildina þá er ekki samkomulag við stjórnarflokkana og þá sem mynda ríkisstjórn. Þetta er því einhver misskilningur.

Varðandi makrílinn ætla ég að vera þeirrar skoðunar að ráðherrann hafi lagt mikla vinnu í að koma til móts við athugasemdir og að mikilvægt sé að það mál sé klárað. Ég er ekki sammála því að það sé bara fínt að það dagi uppi.