144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2013. Fjárlaganefnd var samhuga í þessu nefndaráliti og allir nefndarmenn í fjárlaganefnd skrifa undir það. Það er afar ánægjulegt að hér sé hægt að afgreiða mál frá Alþingi í mikilli sátt.

Mig langar aðeins að benda á það í upphafi að 27. apríl, fyrir tveimur mánuðum, var málið tilbúið og afgreitt út úr fjárlaganefnd. Það eru tveir mánuðir síðan og því er mjög bagalegt hvernig þingstörfin hafa gengið undanfarnar vikur. Þetta er eitt af þeim málum sem þarf að koma sem fyrst í gegnum þingið eftir að fjárlaganefnd hefur fjallað um það vegna þess að lokafjárlög á að afgreiða samhliða ríkisreikningi fyrir viðkomandi ár.

Fjárlaganefnd hefur fjallað um frumvarpið á tveimur fundum frá því að það gekk til nefndarinnar 18. febrúar sl. og nefndin kallaði til sín fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Tilgangur frumvarpsins er að staðfesta ríkisreikning ársins 2013 og er það með hefðbundnu sniði. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður afgangsheimilda og umframgjalda í rekstri ríkissjóðs fyrir árið 2013. Í frumvarpinu eru tvær lagagreinar auk gildistökugreinar. Annars vegar eru lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna frávika á ríkistekjum stofnana, þ.e. frávika frá áætlun fjárlaga og fjáraukalaga við uppgjör ríkisreiknings fyrir viðkomandi tekjulið, hins vegar gerðar tillögur um niðurfellingar á stöðu fjárheimilda í árslok 2013.

Í nefndarálitum með frumvörpum til lokafjárlaga undanfarin ár hefur nefndin vakið athygli á því að frumvarpið hefur aldrei verið lagt fram samhliða ríkisreikningi eins og þó er tiltekið í 45. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að gert skuli. Næst þessu komst frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2011 sem var lagt fram um fjórum mánuðum síðar en ríkisreikningur fyrir sama ár. Frumvarpið var nú lagt fram 3. febrúar sl., þ.e. um sjö mánuðum eftir framlagningu ríkisreiknings 2013.

Uppgjör á frávikum ríkistekna leiðir samtals til tillagna um hækkun fjárheimilda um rúmlega 1 milljarð á rekstrargrunni þar sem innheimta tekna reyndist meiri en áætlað var. Heildarheimildir ársins 2013 námu rúmum 595 milljörðum að meðtalinni viðbót vegna uppgjörs ríkistekna en útgjöldin voru rúmlega 592 milljarðar, þ.e. eða rúmlega 3 milljörðum kr. lægri en fjárheimildirnar. Tillögur um niðurfellingar fjárheimilda miðast við að í heildina falli niður umframgjöld upp á tæplega 10 milljarða umfram inneignir. Þar með eru nettó um 13 milljarða kr. heimildir umfram gjöld sem lagt er til að færist til næsta árs.

Í lögum um fjárreiður ríkisins kemur ekki fram hvort og þá hvernig skuli breyta fjárheimildum stofnana í þeim tilvikum þegar ríkistekjur eru bókfærðar hjá þeim og reynast aðrar en áætlað var í fjárlögum og fjáraukalögum. Sú venja hefur skapast að breyta fjárheimildum eftir á, í lokafjárlögum til samræmis við frávik reiknings frá áætlun. Fjárlaganefnd hefur beitt sér fyrir breyttu fyrirkomulagi uppgjörs á frávikum ríkistekna. Í þessu felst að afnema markaðar tekjur. Þær færðust því eingöngu á tekjuhlið fjárlaga en þess í stað yrði veitt ríkisframlag á gjaldahlið til þeirra stofnana sem áður nutu markaðra tekna. Meiri hluti nefndarinnar lagði fram frumvarp á síðasta þingi sem miðaðist við að afnema markaðar tekjur í heild sinni. Í tengslum við frumvarp um opinber fjármál sem nú er til umfjöllunar í þinginu, en virðist því miður ekki ætla að verða að lögum á þessu þingi, verður fyrirkomulag markaðra tekna tekið til endurskoðunar.

Tillögur í 2. gr. frumvarpsins um niðurfellingar á stöðu fjárheimilda í árslok 2013 fylgja að mestu meginreglum sem fylgt hefur verið um árabil og tilgreindar eru á bls. 77 í athugasemdum við frumvarpið. Þær felast meðal annars í því að árslokastaða á liðum almannatrygginga, vaxtagjalda, lífeyrisskuldbindinga og ýmsum öðrum liðum sem ekki falla undir hefðbundin rekstrargjöld er felld niður.

Fyrir bankahrun var algengt að afgangsheimildir í rekstri væru fluttar á milli ára, nær óháð því hve háar þær voru. Á síðustu árum hefur orðið sú breyting að fjármála- og efnahagsráðuneytið leggur aukna áherslu á að rekstrarafgangur umfram 10% af fjárveitingum ársins sé felldur niður. Nokkur dæmi eru um slíkt í frumvarpinu. Afgangur af stofnkostnaði og viðhaldi er aftur á móti yfirleitt fluttur óskertur á milli ára.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á að það er of mikið um að stofnkostnaðarframkvæmdir séu ekki í neinu samræmi við fjárheimildir ársins og er þá ýmist mjög mikill afgangur eða umframgjöld færð til næsta árs. Dæmi um það eru framkvæmdir á Alþingisreit, Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð og þátttaka í bókamessu. Það er mjög alvarlegt að svona verkefni, sem eru raunverulega einskiptisverkefni, fari svo mikið fram úr sem sjá má í nefndaráliti þessu.

Þess ber að geta, og hrósa þeim sem gera vel, að það er afgangur og hann er jafnvel miklu meiri en áætlanir fjárlaga miðuðust við. Það á við um geymsluhúsnæði safna og fleiri liði. Það þarf að sýna enn frekari aga í ríkisfjármálum, gera fjárlögin raunhæfari og miða við að útgjöld séu sambærileg við þær heimildir sem fjárveitingavaldið ákveður, þ.e. Alþingi sjálft.

Í frumvarpinu er smámisræmi á tveimur liðum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram misræmi á milli ríkisreiknings og frumvarpsins á tveimur liðum. Það er annars vegar liðurinn Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta og hins vegar Fjármálaeftirlitið. Jafnframt er boðað í frumvarpinu að gerðar hafi verið ráðstafanir til að leiðrétta misræmið í ríkisreikningi fyrir árið 2014.

Fjárlaganefnd leggur ekki til breytingar á frumvarpinu þrátt fyrir þau dæmi sem ég hef farið yfir en mælist til þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi forgöngu um að bæta úr þeim annmörkum sem nefndir eru í nefndarálitinu. Því leggur fjárlaganefnd til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Flutningsmenn að þessu nefndaráliti ásamt mér eru allir þeir þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd, hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, Oddný G. Harðardóttir, 2. varaformaður fjárlaganefndar, Ásmundur Einar Daðason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Haraldur Benediktsson og Karl Garðarsson.