144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil gleðjast eins og hv. þingmaður yfir því að fjárlaganefnd hafi náð saman. Það er ekki mjög algengt að fjárlaganefnd sé saman á nefndaráliti en það var ágætt að það náðist í þessu frumvarpi.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að lokafjárlög 2013, sem staðfesta ríkisreikning 2013, séu í raun góður vitnisburður um hversu góðu búi ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins tók við af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Er hún ekki sammála mér um það að þetta sé einmitt góður vitnisburður um þau þáttaskil sem urðu með fjárlagafrumvarpinu árið 2013 og fjárlögum árið 2013? Er það ekki í raun merkileg niðurstaða sem ríkisreikningur sýnir og ekki síst í ljósi þess að þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við þá töluðu forustumenn stjórnarflokkanna þannig um stöðu ríkisfjármála eins og hér væri bara allt í kaldakoli.

Raunin er sú að það er neikvæð staða upp á 700 milljónir en fjárlög fyrir árið 2013 höfðu gert ráð fyrir neikvæðri stöðu upp á 3,7 milljarða. Raunstaðan varð betri en fjárlög höfðu gert ráð fyrir en í fjáraukalögum, sem samþykkt voru af stjórnarmeirihlutanum, var talað um að það yrði neikvæð staða upp á 19,7 milljarða. Þetta eru tölulegar staðreyndir. Ég ítreka bara spurningu mína: Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að ríkisreikningur 2013 og lokafjárlög 2013 séu góður vitnisburður um það að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við góðu búi?