144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að reka slyðruorðið af forsetadæminu með því að setja ofan í við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hún er eina manneskjan sem situr í þessum þingsölum sem tekur sér í munn landráðabrigsl og sakar beinlínis þingmenn annarra flokka um að vinna meðvitað gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það er þess vegna sem hv. þingmaður á svona erfitt með að öðlast virðingu annarra þingmanna.

Hins vegar fólust söguleg tíðindi í umræðunum sem áttu sér stað áðan. Hv. þingmaður féllst á það, aðspurð, að núverandi ríkisstjórn hefði tekið við góðu búi. Það hefur hv. þingmaður aldrei gert áður, en það er auðvitað staðreynd. Þegar maður skoðar ríkisreikninginn sést að árangur síðasta ár síðustu ríkisstjórnar var býsna góður. Vitaskuld var það líka vegna þess að ný ríkisstjórn tók harðar á og skar niður, það er alveg rétt, en eigi að síður sýnir ríkisreikningurinn hversu vel síðasta ríkisstjórn starfaði. Þegar maður ber saman þennan ríkisreikning fyrir 2013 og síðan þá sem á undan voru kemur í ljós að á fimm árum hefur afkoman batnað jafnt og þétt milli ára. Hún var 2013 tæplega 120 milljörðum kr. betri en árið 2009. Telur ekki hv. þingmaður að ríkisstjórn kröfuhafanna hafi staðið sig vel í þessu?

Ég hafði nokkrar tæknilegar spurningar til hv. þingmanns en hún er þess eðlis að það er ekki hægt að eiga við hana málefnalegan orðastað. Hún fer alltaf út yfir öll mörk þannig að ég ætla að láta það bíða seinni ræðu minnar.