144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Mér rennur í skap undir þessari ræðu hæstv. forseta þingsins. Hann hefur enga sérstaka ástæðu til að tala um stóryrði við mig þegar hann hefur hérna nánast átölulaust …

(Forseti (EKG): Forseti var að taka fram að hann var ekki að víkja að því nema síður sé. Hv. þingmaður hefur ekki talað með þeim hætti hér í dag að það gefi neitt tilefni til þess þannig að það sé alveg skýrt af hálfu forseta.)

Hæstv. forseti lætur nánast átölulaust þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talar hér um ríkisstjórn kröfuhafa. Í því felst ásökun um að fyrri ríkisstjórn hafi gengið erlendra hagsmuna. Hæstv. forseta ber við tilteknar aðstæður að taka kannski harðar á því en með þeim hætti að nánast slá bjöllu í hausinn á þeim þingmanni sem hér stendur.

Herra forseti. Ég ætlaði að koma hingað til að eiga orðastað um tiltekna hluti í þessu ágæta plaggi sem hv. þingmaður hafði framsögu fyrir áðan en það er mjög erfitt að eiga málefnalegan orðastað við hæstv. forseta. Ég tek því sem brigslum um landráð eða nærri því þegar hv. þingmaður kemur hér ítrekað og talar um ríkisstjórn kröfuhafa. Í því liggja ekkert annað en brigsl um það að fyrri ríkisstjórn hafi gengið erinda erlendra kröfuhafa. Í þeim efnum segi ég að hv. þingmaður ætti að líta sjálfri sér nær. Hún ætti að skoða hvernig fjölmiðlar eru farnir að fjalla um niðurstöðu samningamakksins úti í London milli fulltrúa Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, og kröfuhafa. Þorbjörn Þórðarson, einn af þeim sem hvað gleggst fjallar um fjármálaleg efni, talar um ofsagleði kröfuhafa og hann spyr hvað valdi ofsagleði kröfuhafa. Spurningin er svona: Er það vegna þess að þeir fengu svo góðan díl?

Þessu ætti hv. þingmaður að velta fyrir sér frekar en að saka aðra um landráð. Mér þykir miður að þurfa að eyða þessum tíma í þetta en ef hæstv. forseti hefur ekki manndóm í sér til að setja ofan í við hv. þingmann þá geri ég það. Ég ætla ekki að sitja undir þessu.