144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel að það sé vilji til þess og kannski, eins og ég sagði áðan, til að lækka skuldir ríkissjóðs. Vissulega er það svo að ríkisfjármálaáætlunin sýnir því miður allt of lítinn afgang miðað við hversu gott ég tel búið hafi verið sem tekið var við. Afkoman í lok 2013 er heldur betri en núverandi forkólfar voru búnir að gefa til kynna og það er án inngripa ríkissjóðs, það er án þess að við tökum tillit til arðgreiðslu og annars slíks af hálfu Seðlabankans. Eins og ég sagði áðan staðfesta Markaðspunktar Arion banka á þessum tíma þetta, að frádregnum óreglulegum liðum.

Það er auðvitað athyglisvert sem kemur fram í ríkisfjármálaáætluninni að til dæmis sé ekki gert ráð fyrir byggingu Landspítalans fyrr en alveg í lokin, þá er gert ráð fyrir hönnun og einhverju slíku. Ég tel að við gætum þurft að standa frekar í fæturna. Það er hagræðingarhópur hér að störfum eða hann skilaði áætlunum um hvernig þau vildu sjá ríkisbúskapinn vera og það hefur eitthvað af því gengið eftir. Það að lækka skuldir virðist vera minna forgangsatriði en í rauninni að fækka ríkisstofnunum og fækka starfsfólki hjá ríkinu, það virðist vera meginmarkmiðið.

Ég hef náttúrlega ekki frekar en hv. þingmaður mikla trú á þeirri stefnu sem hér er rekin þar sem fólk afsalar sér tekjum í stórum stíl og sú skattstefna sem hefur verið boðuð stenst ekki þegar á er litið.