144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Á seinasta kjörtímabili stóð flokkur hv. þingmanns, Samfylkingin, að því að auka gegnsæi í fjármálum ríkisins með því að gefa út gögn á tölvutæku formi. Það er oft vanmetið en það gefur fólki úti í bæ tækifæri til þess að nýta gögnin á einhvern nýjan hátt sem stjórnmálamenn sjá jafnvel ekki fyrir og eiga ekkert endilega að þurfa að sjá fyrir, heldur veita frekar gögnin og láta einhvern annan sjá um að gera eitthvert gagn úr þeim. Skýrasta dæmið um þetta er hvertferskatturinn.is sem er unnið úr þessum gögnum. Flokkur hv. þingmanns, Samfylkingin, á vissulega hrós skilið fyrir mjög jákvætt og stórt skref í þeim efnum, að mínu mati.

Það sem ég er að velta fyrir mér, þegar kemur að fjárlögum og lokafjárlögum og fjármálum ríkisins almennt, er hvernig megi auka í fyrsta lagi gegnsæi og í öðru lagi lýðræðislega aðkomu að einhverju leyti, þó auðvitað með þeim fyrirvara að fjármál ríkisins eru sennilega sá hluti ríkisins sem krefst hvað faglegastrar nálgunar frekar en endilega pólitískrar að öllu leyti. Vissulega snúast þau um stórar pólitískar spurningar og þess vegna eru málefnin hér en ekki í einhverju einkafyrirtæki, einhverri stofnun sem sér um þetta fyrir okkur. Þar liggur jú vandinn.

Ég velti mörkuðum tekjum sérstaklega fyrir mér. Ég hefði haldið og hélt þegar ég byrjaði á Alþingi að markaðar tekjur væru einfaldlega gott fyrirbæri. Svo kemur í ljós að það er ekki endilega þannig. Bókhaldarar sem ég hef talað við meina að það sé ekkert endilega jafn einfalt og þægilegt og gegnsætt og menn vilja meina. Getur hv. þingmaður frætt okkur um sína sýn á markaðar tekjur og hlutverk þeirra í gegnsæi ríkisfjármálanna?