144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða. Hugmyndin um markaðar tekjur virkar sanngjörn í fljótu bragði, eins og að bensíngjaldið fari bara í eitthvað sem varðar bíla, skip og svoleiðis. Þess vegna þykir mér þetta í raun og veru mjög áhugavert í tengslum við gegnsæið. Auðvitað er gegnsæi í sjálfu sér til lítils ef fyrirbærin eru það flókin að enginn skilur upp eða niður í þeim. Þess vegna skiptir miklu máli að mínu mati að hlutirnir séu tiltölulega einfaldir, nógu einfaldir til þess að leikmaður sem ekki hefur sérþekkingu á efninu geti gert eitthvað við upplýsingarnar. Í því felst gegnsæið.

Ég er eiginlega smátt og smátt að hallast á hlið hv. þingmanns, þ.e. að markaðir tekjustofnar séu ekki góð hugmynd, a.m.k. ekki út frá gegnsæisvinkli en kannski frá einhvers konar sanngirnisvinkli, það getur verið. Að vísu verð ég að segja, fyrst hv. þingmaður nefnir vantraust á getu pólitíska valdsins til að dreifa fénu, að ég held að það vantraust sé til staðar og ég held að það vantraust sé að einhverju leyti, jafnvel verulegu leyti, réttmætt vegna þess að hér körpum við í þessum ágæta pólitíska sal um pólitísk málefni og við höfum misjafna sýn á hvert féð eigi að fara. Það veit almættið og þjóðin og hið háa Alþingi ætti að vita það einnig að oft ratar féð ekki á rétta staði miðað við þau vandamál sem eru uppi í hverjum málaflokki hverju sinni.

Ég velti fyrir mér leiðum til að auka gegnsæi til þess að gefa þjóðinni, einstaklingum, stofnunum eða hvaðeina, færi á því í raun og veru að taka við einhverju af þessari umræðu til að upplýsa Alþingi um það hvernig forgangsröðin eigi að vera. Það sem mér dettur í hug í fljótu bragði er einfaldlega skjalasniðið sem þessi gögn komu fram á. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverjar hugmyndir um það hvernig sé hægt að auka gegnsæið meira, jafnvel þá í takt við það sem flokkur hv. þingmanns gerði á seinasta kjörtímabili.