144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í sjálfu sér ættu umræður og afgreiðsla þessara lokafjárlaga að vera gleðiefni fyrir alla þá sem í þingsal sitja. Ástæðan er sú að það kemur í ljós að árið 2013 var gott ár og það stóð vel undir þeim áætlunum sem menn höfðu lagt og þar má kannski fyrst og fremst þakka tvennu. Í fyrsta lagi þeirri ríkisstjórn sem sat hálft það ár en líka þeirri ríkisstjórn sem við tók.

Ég tel eins og jafnan þegar maður horfir til baka og getur farið lofsamlegum orðum, ef verðleikar leyfa, um störf þeirra sem á undan komu, þá eigi menn að vera örlátir og segja hlutina eins og þeir eru. Ég er þeirrar skoðunar að allt frá því að Ísland gekk í gegnum hið erfiða hrun árið 2008 þá hafi allar þær ríkisstjórnir sem komu að tiltekt eftir það mál lagt sig fram um að gera hlut Íslands hinn besta. Það gilti um fyrstu ríkisstjórnina, ríkisstjórn þáverandi forsætisráðherra Geirs H. Haardes. Hún lenti sannarlega í áföllum en eins og hefur komið í ljós þá fann hún réttu leiðirnar í því völundarhúsi lausna sem þá voru í boði. Allar rannsóknir og skoðanir sem síðan hafa farið fram á ákvörðunum sem þá voru teknar teikna sig allar til þess að það tæki sem við bjuggum til í formi neyðarlaga var hugsanlega, þegar menn horfa til baka, eina raunhæfa leiðin til að ná viðspyrnu og viðspyrna náðist svo sannarlega. Á þessum árum blasti við ógnarsvört sýn. Þá lágu fyrir spár erlendra greiningarstofnana um að Ísland mundi þurfa að fara í gegnum fast að 15% atvinnuleysi, verðbólgan var þá 21% og stýrivextir voru fáheyrðir í heimi öllum, voru hér við 18%. Því hafði verið spáð að 70% íslenskra fyrirtækja mundu verða gjaldþrota og meiri hluti íslenskra heimila eins og staðan var þá, framtíðarsýnin sem blasti við var vonarvölurinn. Þetta var staðan í lok bankahrunsins.

Í dag erum við komin á árið 2015 og hvernig er það sem við blasir núna? Jú, allar götur frá miðju ári 2010 hefur verið hagvöxtur. Allar þær áætlanir sem lagðar voru af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Seðlabankanum og þremur fyrrverandi fjármálaráðherrum síðustu tveggja ríkisstjórna hafa gengið eftir nánast upp á punkt og prik. Heimilunum var bjargað og vissulega líka með sterku liðsinni núverandi ríkisstjórnar. Fyrirtækjunum sem voru í þokkalegri stöðu fyrir hrunið var öllum komið fyrir vind, verðbólgan hneig mjög hratt vegna aðgerða fyrri ríkisstjórna og síðan hafa auðvitað bæst við mjög hagstæð ytri skilyrði sem hafa leitt til enn dvínandi verðbólgu, vextirnir hrundu svo að segja fyrir atbeina síðustu ríkisstjórnar og kannski það sem mestu skipti, allar þær aðgerðir sem gripið var til af hennar hálfu leiddu til að atvinnuleysið lækkaði verulega hratt. Það er að vísu áhyggjuefni núna í tíð þessarar ríkisstjórnar, miðað við síðustu tölur, að það hefur ekki haldið áfram að lækka. Á þeim tíma réðust menn í mjög mikilvægar aðgerðir til að skapa störf og það er kannski tvennt sem ég vil sérstaklega nefna. Í fyrsta lagi hefur aldrei í sögu lýðveldisins verið sett jafn mikið ríkisfjármagn til vegaframkvæmda og samgangna eins og þá. Af hverju? Vegna þess að við fórum eftir hinu keynesíska lögmáli. Við spýttum inn í efnahagslífið, við jukum framkvæmdir, við sköpuðum störf og við lögðum vegi. Þetta skipti gríðarlega miklu máli. Í annan stað lagði sú ríkisstjórn við rosalega þröngar aðstæður gríðarlegt fjármagn í að efla ferðaþjónustu. Á þessum tíma jukust fjárframlög til ferðaþjónustu fimmfalt frá því sem þau höfðu verið mest sem var það ár sem fyrrverandi forseti þingsins og samgönguráðherra Sturla Böðvarsson fór með ferðamálin í kjölfar árásarinnar á tvíburaturnana 2001. Við settum 1 milljarð kr., 1.000 millj. kr., í að ýta undir ferðaþjónustu í tveimur afmörkuðum verkefnum við mótmæli jafnvel hér innan úr þingsal, annars vegar Inspired by Iceland, með leyfi forseta, og hins vegar Ísland allt árið. Í dag sjáum við ávöxtinn af þessu. Ekki er ég að halda því fram að öll sú aukning á komu erlendra ferðamanna til Íslands stafi af því. Vissulega skiptir mjög miklu máli að Ísland var ódýrara vegna þess að krónan féll. En fyrri ríkisstjórn kom því á framfæri og kannski er gleggsta merkið um það sú bylting sem hefur orðið í komu erlendra ferðamanna utan hefðbundins ferðamannatíma. Þetta var það sem fyrri ríkisstjórn gerði.

Ég efa ekki eitt einasta augnablik að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Það vill svo til að ég er ósammála henni í ýmsum grundvallaratriðum en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þó ég telji að hún fari villur vegar í einstökum efnum og jafnvel stórpólitískum, þá dreg ég ekki í efa að sú ríkisstjórn vilji vinna þjóð sinni vel. Það vilja allir sem sitja í ríkisstjórnum, sitja á Alþingi. Fyrri ríkisstjórn lagði til dæmis ákveðinn grunn að því að afnema gjaldeyrishöft. Núverandi ríkisstjórn hefur vissulega vonum seinna brugðist til og það liggur fyrir að við erum núna hugsanlega að leggja grunn að því að geta afnumið gjaldeyrishöft eins og Lee Buchheit segir á næstu sex til sjö árum. Þegar eru komnar fram tillögur í efnahags- og viðskiptanefnd um ákveðnar lagabreytingar til að gera ráð fyrir því að það geti orðið lengra. Forsendan fyrir því var auðvitað ákvörðun sem var tekin hér á sínum tíma þegar fyrri ríkisstjórn lagði fram lagafrumvarp eftir lokun fjármálamarkaða sem læstu inni allar gjaldeyriseigur slitabúanna. Ég efa ekki eitt augnablik að allir þeir þingmenn sem þá greiddu atkvæði hafa gert það eftir sinni bestu sannfæringu. Til dæmis, þótt ég hafi aldrei skilið það og ekki heldur í dag, þá ímynda ég mér að þegar hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, lagði ekki í að styðja það sem í dag er undirstaða fyrir afnámi gjaldeyrishafta, þá hafi hún gert það af nákvæmlega sömu hvötum og hæstv. forsætisráðherra þegar ég gekk eftir því hér í umræðu um frumvarpið um afnám haftanna hvers vegna það hefði verið afstaða Framsóknarflokksins og hann sagði: Ég skildi málið ekki, það bar svo brátt að. Ég hugsa að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi ekki skilið málið heldur þá … (VigH: Um hvað ertu að tala?) Lögin sem samþykkt voru um breytingar á gjaldeyrislögum 12. mars 2012, þegar hv. Vigdís Hauksdóttir hafði ekki kjark til að taka á með fyrri ríkisstjórn í baráttunni gegn kröfuhöfum. (Gripið fram í.) Það væri auðvelt fyrir mig með nákvæmlega sömu rökum og hv. þm. hefur orðið sér til skammar fyrir á þessum degi með því að halda því fram að við höfum meðvitað gengið erinda kröfuhafanna, að halda því fram að einmitt hún hafi gert það á því kvöldi þegar hún tók ekki undir hornið með ríkisstjórninni í baráttunni við kröfuhafana. En mér kemur það ekki til hugar að hv. þingmaður hafi nokkra örðu af eðli sem teiknar til þess að hún vilji vinna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar. En ég get hins vegar leyft mér með þessum sömu rökum að segja að stundum skortir aðeins leiftur skilningsins hjá hv. þingmanni eins og hæstv. forsætisráðherra.

Öllum ríkisstjórnum verður á og það er engin ríkisstjórn fullkomin og ég er þeirrar skoðunar að þessi ríkisstjórn hafi gert ýmiss konar mistök. Það læðist til dæmis að mér vaxandi grunur um samninga hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við kröfuhafa, sem hann að vísu neitaði að hefðu átt sér stað úti í Lundúnum en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var nægilega ærlegur til að gangast við því og upplýsa með hvaða hætti þær viðræður voru. En það er margt sem er að teikna sig til þess að hæstv. forsætisráðherra hafi samið af sér í samningunum við kröfuhafana. Ég kem kannski að því síðar í minni ræðu en það er auðvitað með ólíkindum þegar virtustu og reyndustu blaðamenn í fjölmiðlum sem fjalla um fjármálalífið eru farnir að skrifa heilar greinar um ofsagleði kröfuhafa og spyrja sjálfan sig upphátt: Hvað veldur ofsagleði kröfuhafa? Þeir spyrja einfaldlega og segja eins og Þorbjörn Þórðarson rannsóknarblaðamaður Stöðvar 2 sagði í grein í fjármála- og markaðshluta Fréttablaðsins í gær: „Það læðist að mér uggur.“ Hver var uggurinn? Jú, að ofsagleði kröfuhafanna stafaði af því að hæstv. forsætisráðherra, leiðtogi lífs hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, hefði samið af sér, hann hefði verið of fljótur á sér, hugsanlega vegna þess að hann þurfti yfirlýsingu fyrir flokksþing Framsóknarflokksins, ég ætla ekki að gera því skóna en tímasetningarnar lykta ekki vel eins og verður rifjað hér upp í umræðum þegar að því kemur.

Það breytir ekki þeirri skoðun að ég tel að ríkisstjórnin leggi sig fram og ég er ánægður með margt sem hún hefur gert. Ég er til dæmis sérstaklega ánægður með ýmislegt sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gert varðandi það að breyta hér lögum og hann tekur þar alveg óhikað við þeirri arfleifð sem kom frá hv. þingmönnum Katrínu Júlíusdóttur og Oddnýju Harðardóttur sem þær höfðu undirbúið áður og þannig eiga menn að vinna. Menn eiga að taka það sem jákvætt er frá forverum þeirra og halda áfram vinnunni með það og það er það sem mér finnst svo jákvætt við hæstv. fjármálaráðherra, hann hikar ekki við það. Hann er kannski eins og ég, tekur sér til fordæmis hin vísu orð hins mikla formanns, Maós, sem sagði: Mér er alveg sama hvernig kettirnir eru á litinn, bara ef þeir veiða mýs.

Herra forseti. Nú kemur eiginlega stíllegt rof í ræðu mína því ég var kominn að hluta hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og ummæla hennar í dag en þá skýst hún úr salnum. En á meðan ætla ég aðeins að fara í þetta frumvarp til lokafjárlaga.

Það sem vekur eftirtekt mína þegar við fjöllum um þetta frumvarp er sú staðreynd að það hefur lítil framför orðið frá því sem menn voru að ræða fyrir nokkrum árum um að reyna að gera þessi lokafjárlög sem eru mikilvægt tæki þannig úr garði að þau væru skiljanleg. Ég ímynda mér að þegar hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sest inn á þing og fer að skoða þetta þá virki frumvarpið fyrir honum sem hreint torf. Fyrir mig sem er búinn að vera hér í 23 eða 24 ár er mjög erfitt að skilja lokafjárlögin vegna þess að þar er verið að gera tillögur um færslu heimilda, bæði útgjalda og tekna, millum ára og í mörgum efnum eru engar skýringar þar við. Það kemur til dæmis fram á bls. 75, herra forseti, að af þeim einstöku fjárlagaliðum þar sem afgangsheimildir í árslok 2013 voru mestar, er liðurinn 09-711 hæstur, og kemur í ljós að það eru afskriftir skattkrafna upp á 11,8 milljarða kr. Ég segi fyrir mig og er um það bil sannfærður um að fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins tekur undir með mér að ég vildi gjarnan sjá það hvernig á því stendur að skattkröfur eru afskrifaðar um 11,8 milljarða umfram það sem áformað var. Ég finn hvergi neinar skýringar á því. Hins vegar eins og um allt annað eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir rakti svo prýðilega í sinni ræðu fyrr í dag er það hvergi sundurliðað. Það eru engar skýringar og þar sem menn eru að færa heimildir yfir áramót er í sumum tilvikum ekki greint frá því hversu mikið er við einstaka liði heldur kemur bara einfaldlega samtala í málaflokknum. Ég ímynda mér að hinn vaski þingmaður Helgi Hrafn Gunnarsson sem berst ótrauður fyrir auknu gagnsæi og tærleika sé mér sammála um að það sé ekki hægt að bjóða fólki upp á svona, jafnvel ekki sjálfum formanni Lögmannafélagsins, núverandi eða fyrrverandi, og sjálfur á ég erfitt með að skilja þetta líka.

Ég velti því líka fyrir mér hvaða möguleika fjárlaganefnd hefur til að nýta þetta tæki. Ég hef alltaf litið svo á að lokafjárlög séu mjög gott tæki, ekki bara til að stemma af reikninginn, heldur til að sjá hvernig áformin falla að raunveruleikanum og í gegnum þetta getum við séð þegar stofnanir, eins og við sáum svo miklu oftar á árum fyrri, fara ár eftir ár fram úr heimildum. Við notuðum einmitt lokafjárlög á fyrri árum til að ná utan um slík fyrirtæki og stofnanir og reyna að setja þeim stólinn fyrir dyrnar. Sem dæmi kemur fram hérna í nefndarálitinu um eina tiltekna framkvæmd, ákveðið hjúkrunarheimili, að umframgjöldin eru á fjórða hundrað milljarða kr. og það kemur fram að þetta er margföld fjárveiting ársins. Maður veltir því fyrir sér hvernig svona geti gerst um leið og maður þakkar guði fyrir það að þessi dæmi eru fá.

Hver einasti þingmaður sem hér hefur talað í dag hefur harmað það andrúmsloft sem þessi umræða um lokafjárlög hefur farið fram í. Hún ætti að vera málefnaleg og hefur alla burði til þess en það var auðvitað hv. formaður fjárlaganefndar sem nú er flúin úr salnum sem hóf umræðuna með ótæpilegum flaumi svívirðinga um tvo stjórnmálaflokka sem sátu í síðustu ríkisstjórn. Hún sagði það hreint út að þeir flokkar hefðu gengið erinda kröfuhafa, það hefði verið ríkisstjórn kröfuhafa. Ég segi það algerlega skýrt að þetta eru ekkert annað en brigsl um landráð. Það kemur mér auðvitað ekki á óvart að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir láti sér slíkt um munn fara en hún er eini þingmaðurinn sem hefur gert það. Hún hóf sinn feril á Alþingi með nákvæmlega þessum orðum árið 2007 eða 2008 og hún er enn að. Þetta finnst mér skjóta skökku við, sérstaklega í ljósi þess að hér hafa hv. þingmenn Framsóknarflokksins mörgum sinnum, þrír í bunu á síðustu vikum komið upp og kvartað undan því að það væri ekki nógu jákvætt andrúmsloft á Alþingi Íslendinga. Þeir hafa kvartað undan því að það væri áreitni, frammíköll og mönnum væri brigslað um hitt og þetta. Og svo gerist það að annan daginn í röð kemur formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sem ekki þolir að sitja undir þessum sannleika og er flúin úr þingsal, hún kemur hér tvo daga í röð og kallar fyrri ríkisstjórn þessu nafni, segir það beinlínis að hún hafi verið að vinna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Og það ætla ég ekki að láta hljóðalaust yfir mig ganga. Og það var þess vegna sem ég brást svo illa við gagnvart forseta Alþingis fyrr í dag vegna þess að ég á heimtingu á því að forseti Alþingis verji mig gegn brigslum af þessum toga, en það höfum við jafnað okkar í millum.

Það er hins vegar með ólíkindum að þessi hv. þingmaður taki svona til orða. Hún er helsti liðsspjóti hæstv. forsætisráðherra sem er nýbúinn að ljúka samningum við kröfuhafa og þeir samningar eins og ég vakti eftirtekt á við 1. umr. um þau frumvörp gengu mjög hratt fyrir sig. Ég spurði þá hæstv. fjármálaráðherra hvort verið gæti að Íslendingar hefðu verið of bráðir og gengið of hratt til samninga. Nú kemur í ljós að fjármálablaðamenn, m.a. Þorbjörn Þórðarson á Stöð 2, eru farnir að velta þessu sama fyrir sér. Þorbjörn Þórðarson, sem er líkast til einn gleggsti blaðamaðurinn sem er að störfum gagnvart fjármálamarkaðnum og þekkir þar nákvæmlega til í baksölum og hliðarherbergjum, spyr opinberlega: Hvað er það sem veldur ofsagleði kröfuhafa? Það er spurt af manni sem þekkir vel til hjá kröfuhöfunum, því sem hæstv. forsætisráðherra kallaði hrægammasjóðina, hann segir að andrúmsloftið þar markist af ofsagleði yfir þeim samningum sem náðust og hann spyr: Hvað veldur því? Og hann svarar, hann kveðst hafa ugg í brjósti yfir því og spyr í grein sem hann skrifar: Var það vegna þess að ríkisstjórn Íslands samdi af sér? Það er nefnilega þannig að það er engu líkara en kröfuhöfunum finnist sem að í lok þessara samninga hafi þeir unnið í happdrætti. Og þegar við skoðum hvað liggur fyrir blasir eftirfarandi við: Hæstv. forsætisráðherra kom hingað og barði sér á brjóst og sagði að hann væri búinn að verða Íslandi út um 1.000–1.200 milljarða. Hvað blasir svo við þegar menn fara að skoða þetta? Jú, það eru endalausir afslættir sem kröfuhafarnir fá fyrir að verða stimamjúkir við hæstv. forsætisráðherra og þetta er líkast til svipuð upphæð og var lagt upp með af síðustu ríkisstjórn. Það skiptir þó ekki máli í þessari upphæð heldur hitt að það skýtur skökku við og sýnir brenglað veruleikaskyn hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þegar hún sakar aðra um að ganga erinda kröfuhafa þegar við blasir að hennar eigin formaður hefur þannig samið við þá að sá blaðamaður sem best þekkir til segir að út hafi brotist ofsagleði.