144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna, hann er kraftmikill eins og hann á vanda til. Ég tek undir það að okkur misbauð auðvitað öllum orð formanns fjárlaganefndar og það má ekki gleyma því að hún er einn valdamesti þingmaður þessarar ríkisstjórnar sem formaður fjárlaganefndar, sem óbreyttur þingmaður, og hennar orð vega þungt hér í umræðunni. Það að vera ásakaður um að sinna ekki hagsmunum Íslendinga heldur einhverra erlendra aðila eru afar þungar ásakanir og ég skildi ekki alveg hér þegar forseti bað hana einmitt um að gæta orða sinna en svo virtist hann draga svolítið í land með það aftur. Það hefði verið áhugavert að það væri staðfest fyrir hvað hann var að biðja hana um að gæta orða sinna.

En það eru nokkur atriði, m.a. að þegar þessi ríkisstjórn tekur við búinu þá stendur það miklu betur en hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra vildu vera láta og töluðu lengi um að það væri ekki eins gott og raunin varð á. Það voru engar 17 eða 20 milljarða leiðréttingar sem voru til staðar heldur var afkoman betri án inngripa ríkissjóðs og ég held að þingmaðurinn hljóti að vera mér sammála um það. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÓP): Ræðumaður hefur orðið.)

En ég hefði alla vega viljað sjá betur farið með þetta tækifæri, þ.e. hvernig ríkisstjórnin er að nýta sér það. Eins og hv. þingmaður rakti þá skiptir máli væntingastjórnunin sem er fram undan og miðað við að þessi staða var vanmetin af þeim sem nú sitja við völdin þá er spurningin: Eru þeir kannski að ofmeta þá stöðu sem fram undan er?