144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf talið hæstv. fjármálaráðherra mjög gætinn en mér fannst hann fara út af sporinu þegar hann boðaði til fundar í Valhöll með auglýsingu þar sem hann kvaðst ætla að tala um afnám hafta og skattalækkanir. Ég tók eftir því að degi síðar, þegar til fundarins kom, var búið að breyta auglýsingunni og kannski hefur hæstv. fjármálaráðherra séð að sér. Ég held að það sé mjög hættulegt að ætla að nýta það svigrúm sem kann að skapast í það sem hægt er að kalla veltuhvetjandi aðgerðir og það er alveg klárt að skattalækkanir eru þannig. Menn geta lækkað skatta ef þeir geta dregið saman í ríkisrekstri eða ef myndast einhvers konar svigrúm og skilyrði til þess. Ég tel að það sé óðs manns æði að ætla að nota þetta til að lækka skatta.

Síðan var hér merk ræða flutt af hv. þm. Frosta Sigurjónssyni um daginn. Það var síðasta ræðan við 1. umr. um þau frumvörp tvö sem lögð voru fram. Þar sagði hann bókstaflega að það mætti engu af þessum peningum eyða. Hann orðaði það þannig að það yrði að eyða þeim, þess vegna brenna þeim. Það eina sem hann gaf sér að væri kleift að nýta þá til var að nota þá til að núlla bréfið sem gekk milli ríkisins og Seðlabankans sem mig minnir að hafi verið 180 milljarðar, ég man ekki hvað mikið, en það er líka það sama og að færa upphæðir úr einum vasa í annan á sama jakka. Hann taldi til dæmis að ekki væri heimilt eða væri hættulegt að nota það til að mæta lífeyrisskuldbindingum sem ríkisstjórnin hefur gagnvart opinberum starfsmönnum. Mér fannst þetta mjög athyglisvert. Ég held að menn þurfi að ganga mjög hægt um þessa peninga ef þetta svigrúm myndast en ég held líka að þar séu ekki öll kurl komin til grafar, ég held að það verði miklu minna eftir því sem ég skoða þetta mál betur en það eru auðvitað miklu betri sérfræðingar en ég í þessum sal um þetta mál.