144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þrenningin fjárlög, aukafjárlög og lokafjárlög er hryggjarstykki í starfi þingsins. Á því grundvallast rekstur ríkisins. Þegar deilur eru uppi í þinginu þá mun hv. þingmaður, sem ég efa ekki að muni eiga langa og glæsta framtíð á Alþingi, komast að því að það er eiginlega sama við hvaða kringumstæður slík mál eru rædd. Stjórnarandstaða hverju sinni stoppar þau aldrei. Það hefur einu sinni verið reynt síðustu 35 ár. Framsóknarflokkurinn árið 1994 ætlaði að reyna að stoppa fjárlög. En endranær er það þannig að í þessum efnum verður meiri hlutinn að lokum að ráða. Það er partur af lýðræðinu og forsenda þess að hægt sé að reka ríki. Þess vegna hefur hv. þingmaður ábyggilega tekið eftir því að stjórnarandstaða sem er ósammála situr hjá frekar en að móast gegn þegar málefnalegar, hóflegar umræður eru frá.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að jafnvel við svona aðstæður ætti að vera hægt að ræða þessi mál. En ef hv. þingmaður á við það að hér hefur verið töluverð spenna í þingsölum þá er það þannig að undir engum kringumstæðum mun ég láta það yfir mig ganga að einhverjir þingdónar komi hingað og kalli mig nöfnum sem vísa til þess og fela í sér ásakanir um að ég hafi unnið gegn minni eigin þjóð. Slíkar ásakanir og slík brigslyrði eru ekki til þess fallin að skapa jákvætt andrúmsloft fyrir umræðuna. Menn hafa samt sem áður reynt að ræða þetta málefnalega en vitaskuld er mönnum heitt í hamsi og hver einasti þingmaður hefur einmitt gert títtnefnd ummæli að umræðuefni. En ég skil hvað hv. þingmaður á við og get þess þá í lokin að best væri að saman kæmu fram ríkisreikningur og lokafjárlög, en það hefur aldrei tekist, komst næst því árið 2011.