144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir að það er mjög erfitt að reyna að hafa umræðuna málefnalega þegar maður er sakaður um einhvers konar landráð eða hvað maður á að kalla það. En vel á minnst, þessar tímasetningar sem hv. þingmaður nefndi í lok andsvars síns, ég hjó eftir þessu líka í nefndarálitinu.

Ég velti svolítið fyrir mér hvað kemur til, hvers vegna þetta er svona. Allar ríkisstjórnir, fjármálaráðuneyti og fjárlaganefndir hljóta að vilja hafa þetta í lagi, að ríkisreikningur komi á sama tíma og lokafjárlög en af einhverjum ástæðum gerist það ekki og það virðist vera einhver ægilegur vandi þarna. Er sá vandi pólitískur eða er hann tæknilegur? Er þetta mannekla? Ég velti stundum fyrir mér hvað það er sem við þurfum að gera til að laga svona vandamál sem allir virðast vilja leysa. Maður sér alla vega ekki í fljótu bragði pólitíska hagsmuni af því að hafa þessa hluti í ólagi.

Þegar kemur að fjárlögum og lokafjárlögum er ég meira fyrir það persónulega að tala um fyrirkomulagið í heild sinni frekar en einstaka upphæð þótt þær komi vissulega til umræðu líka. Þá velti ég fyrir mér hvort tímanum væri ekki best varið í það að finna lausnir, varanlegar lausnir á hlutum eins og framsetningu, tímasetningum á ríkisreikningi og lokafjárlögum og því um líku, reyna að fá þetta allt saman til að stemma til að bæta umræðuna hér í sal. Ég hefði mikinn áhuga á að fræðast meira um þetta og ég er viss um að áheyrendur hefðu það líka. Hvað stendur í vegi fyrir því að þetta sé gert skýrara? Það hlýtur að hjálpa til við alla lýðræðislega umræðu, bæði hér á þingi og meðal þjóðarinnar.