144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál, enda er um lokafjárlög að ræða en ekki fjárlög í sjálfu sér. En eins og ég hef komið að í andsvörum hef ég hvað mestan áhuga á því að framsetning ríkisfjármála sé með þeim hætti að sem auðveldast sé fyrir almenning í landinu að nýta sér þær upplýsingar, ekki eingöngu til að fletta upp tilteknum tölum og spá í hvernig nýta eigi fjármagnið heldur hreinlega til þess að öðlast einhverja heildaryfirsýn yfir ríkisfjármálin.

Nú er það þannig í pólitískri umræðu um hvaða mál sem er sem varða fjármál að upphæðirnar virðast alltaf mjög háar fyrir almenningi. Milljón er mikið fyrir venjulega manneskju úti í þjóðfélaginu, hvað þá tugir milljóna, hundruð milljóna eða milljarðar eða tugir milljarða og hundruð milljarða. Það er þannig upphæð sem við ræðum hér og það er kannski ekki alltaf ljóst, hugsanlega sjaldnast, í hvaða samhengi við ræðum þessar tölur. En það er vitaskuld engum að kenna og í sjálfu sér er ekki hægt að laga það endanlega en það er hægt að gera fólki auðveldara fyrir að átta sig á heildarsamhenginu. Þá nefni ég aftur hið ágæta vefsetur hvertferskatturinn.is, en sá vefur er unninn úr opnum gögnum sem ríkið hóf að gefa út á síðasta kjörtímabili, þökk sé þáverandi hæstv. ráðherra. Þegar maður opnar upplýsingar til almennings þarf ekki allur almenningur að hafa fullan skilning á upplýsingunum, það þarf í raun og veru bara einn og einn að hafa áhuga, kannski smá tíma aflögu og getu til þess að nýta þær upplýsingar með áhugaverðum hætti.

Þá þykir mér líka mikilvægt að halda því til haga að hér á Alþingi eru einungis 63 þingmenn. Það eru bara ákveðið margir ráðherrar og stjórnsýslan er bara ákveðið stór og allar þessar stofnanir eru meira eða minna alltaf uppteknar. Það sem gerist hins vegar úti í samfélaginu er að þar er að mínu mati miklu meiri víðsýni og meiri hugmyndasköpun þar sem hugmyndir fæðast sem ekki fæðast hér vegna þess að við erum ekki í raun hugsmiðir á sama hátt og hinn almenni borgari getur orðið með áhuga sínum og getu. Það er einmitt þess vegna sem framsetning gagnanna skiptir máli.

Til að lýsa svolítið ástandinu sem ég upplifi hér sem tölvunörd til margra ára — ég hef ekki unnið við margt annað en forritun á fullorðinsaldri. Þegar ég lít á þingskjöl eru þau ekki alveg í steik, það væri ósanngjarnt að segja það, en hins vegar er framsetningin á þeim gamaldags, þori ég að segja, eða öllu heldur óhentug fyrir tölvuvinnslu. Einfaldir hlutir eins og að hanna hugbúnað sem flettir upp tiltekinni grein eða tiltekinni málsgrein innan tiltekinnar greinar innan ákveðinna laga er vandamál. Það er líka vandamál að finna út úr því þegar fram kemur nýtt frumvarp eða þingsályktunartillaga eða eitthvað því um líkt fram og maður vill fletta upp t.d. öllum lögum sem vitnað er í eða öllum hæstaréttardómum sem vitnað er í. Það er tæknilegt vandamál og mér finnst ekki að það vandamál ætti að vera til staðar. Mér finnst að framsetningin á gögnunum ætti að vera þannig að það væri tiltölulega auðvelt, alla vega fyrir vanan hugbúnaðarsmið, að búa til hugbúnað sem meðhöndlar opinber gögn þingsins á miklu betri hátt, ég segi betri hátt á allan hátt. Það mundi taka minni tíma, það yrði betur fram sett, það yrði gagnlegra o.s.frv., það yrði einfaldlega betra. Ég vek athygli á því að þetta á við um þingmál almennt.

En sér í lagi þegar kemur að ríkisfjármálum er um að ræða tölur, mikið af tölum, eðlilega, hefði maður haldið að það væri sérstaklega mikilvægt og í raun einfalt að hafa framsetninguna á gögnunum þannig að auðvelt væri að búa til hugbúnað sem notar þessar tölur, bera þær saman o.s.frv. Nú hef ég sjálfur hreinlega aldrei staðið að gerð fjárlaga þannig að ég viðurkenni að ég veit ekki hversu flókið verkefnið það er, en ég átta mig ekki á því hvaða hugbúnað menn nota nú þegar eða hvaða aðstoðartæki þeir hafa. En ef ég lít á þetta sem tölvunörd fæ ég ekki betur séð en að hér megi bæta mjög margt, bæði hvað varðar þingmál almennt og vissulega hvað varðar ríkisfjármálin. Sem dæmi opnaði ég frumvarpið sem við ræðum hér, lokafjárlög, og skimaði yfir það og var kominn á bls. 85. Þá kom þar ein auð blaðsíða og síðan fylgiskjal 1 og þá var það á hlið þannig að ég þyrfti að snúa því til að geta lesið það. Þetta er ekki stórt vandamál, það er svo sem ekki mikið mál að finna út úr þessu, en þetta virkar gamaldags, maður er ekki vanur að meðhöndla tölugögn með þessum hætti. Maður er miklu vanari því að setja þau upp í töflureikni eða einhverjum öðrum hugbúnaði, einhvers konar bókhaldshugbúnaði. Ég hefði einhvern veginn haldið að þetta væri komið lengra, en svo er ekki af einhverjum ástæðum sem ég þekki ekki og get þess vegna ekki dæmt um það með neinum ábyrgum hætti. En mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga, burt séð frá hinni mikilvægu umræðu um það hvernig við eigum að eyða fjármunum ríkisins og hvernig við eigum að afla þeirra, að gegnsæið sé fólgið í því að gögnin séu aðgengileg almenningi óheft og á sniði sem almenningur getur notað og sérstaklega þá einstaka sérfræðingar úti í bæ sem hafa smá tíma aflögu til að búa til eitthvað nýtt og sniðugt sem okkur þingmönnum dettur ekki í fljótu bragði í hug eða þá stofnunum ríkisins.

Það er í raun og veru ekki fleira sem ég sé ástæðu til að ræða um lokafjárlög að svo stöddu. Mikið mætti nú ræða og verður væntanlega rætt um fjárlög þegar kemur að því að fjalla um hvernig best sé að haga fé. Auðvitað hefur maður margar skoðanir á því en ég læt vera að fara mjög ítarlega út í þær að svo stöddu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.