144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar í þessu stóra máli er varðar héraðssaksóknara. Megintilgangur þessa frumvarps er annars vegar að ákvörðun um málshöfðun flytjist að mestu frá embætti ríkissaksóknara til lögreglustjóra og héraðssaksóknara og hins vegar að verkefni embættis sérstaks saksóknara flytjist til héraðssaksóknara. Þá felst í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að áfram verði tveggja þrepa ákæruvald hér á landi en ekki þriggja eins og við höfum áður rætt hér í þessum þingsal og búið var að lögfesta með lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Æðsti handhafi ákæruvalds verður ríkissaksóknari en embætti héraðssaksóknara verður saksóknar- og lögregluembætti á lægra ákæruvaldsstigi. Embættið mun annast þau verkefni á sviði rannsóknar og ákærumeðferðar efnahagsbrota sem embætti sérstaks saksóknara gegnir í dag, auk þeirra viðbótarrannsókna sem þörf er á í málum frá embætti skattrannsóknarstjóra. Þá er gert ráð fyrir því að héraðssaksóknari annist móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, og var þetta nokkuð rætt í nefndinni, sem og fjármögnun hryðjuverka og að þetta verkefni verði flutt frá peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra. Þá er lagt til að eitt af verkefnum embættis héraðssaksóknara verði að vinna að endurheimt og upptöku ólögmæts ávinnings af hvers kyns refsiverðri háttsemi í tengslum við lögreglurannsóknir við embætti hans og önnur lögregluembætti. Það er gert ráð fyrir því að verkefni ríkissaksóknara við stjórn rannsókna á kærum vegna meintrar refsiverðrar háttsemi starfsmanna lögreglu verði fært til héraðssaksóknara og verkefni sem nú snúa að rannsóknum á brotum gegn valdstjórninni verði færð frá almennum lögregluembættum til embættis héraðssaksóknara.

Við fjölluðum talsvert í nefndinni um lögreglurannsóknir en í 25. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingum á 8. gr. lögreglulaga. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að gera þyrfti skýra grein fyrir samvinnu milli héraðssaksóknara og lögreglustjóra, svo sem heimildum héraðssaksóknara og lögreglustjóra til framsendinga mála á milli embætta. Við tökum undir þau sjónarmið og leggjum því til ákveðnar breytingar á þessari tilteknu grein frumvarpsins.

Það var talsvert fjallað um 3. mgr. a-liðar 25. gr. frumvarpsins sem varðar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í umsögn ríkislögreglustjóra var bent á það að í frumvarpinu væri hvorki með skýrum hætti gert ráð fyrir úrvinnslu slíkra tilkynninga né miðlun upplýsinga til annarra þar til bærra yfirvalda. Var þar vísað til tilskipana Evrópusambandsins og tilmæla frá alþjóðlegum framkvæmdahópi, FATF, en þar birtast okkur alþjóðleg og leiðandi viðmið um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun brotastarfsemi. Við tókum undir þær ábendingar að skilgreina mætti betur hlutverk fyrirhugaðrar skrifstofu varðandi peningaþvætti og lögðum til ákveðnar breytingar þar að lútandi.

Þá tel ég rétt að minnast á það að í nefndinni var talsvert fjallað um að nauðsynlegt væri að kveða á um aðskilnað milli þeirra starfsmanna embættisins sem vinna við móttöku, greiningu og rannsókn tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og annarra starfsmanna embættisins, áður en slíkar tilkynningar hafa verið metnar og sendar formlega til rannsóknar vegna ætlaða refsilagabrota. En við bendum á að í 2. mgr. a-liðar 1. mgr. 25. gr. eru héraðssaksóknara falin sömu verkefni og sérstökum saksóknara hafa verið falin í núgildandi lögum. Því eru ekki gerðar neinar breytingar á í því efni, þ.e. að verkefni fyrirhugaðs embættis verða þau sömu á sviði rannsóknar skatta- og efnahagsbrota og nú eru hjá sérstökum saksóknara.

Við förum í nefndaráliti okkar talsvert yfir rannsókn skattalagabrota og við bendum á að frumvarpið hefur engar breytingar í för með sér á samspili skattrannsóknarstjóra og lögreglu varðandi rannsóknir skattamála frá því sem nú er.

Við fjölluðum talsvert í nefndinni um handhafa lögregluvalds og hverjir ættu að hafa það vald. Um það er fjallað í 26. gr. frumvarpsins og mig langar að benda á að við munum taka málið inn í nefnd á milli umræðna til að fara betur yfir þetta atriði. Ég geri ráð fyrir því að það muni koma breytingartillaga frá nefndinni hvað þetta varðar og því tel ég ekki rétt að reifa það nánar hér, en mun gera það í nefndinni, fjalla betur um það þar og fara svo yfir þá breytingartillögu þegar þar að kemur hér í þingsalnum.

Við fjölluðum talsvert um kærur á hendur lögreglu. Í 28. gr. frumvarpsins er lagt til að héraðssaksóknara verði falið það verkefni sem ríkissaksóknari hefur nú, að taka við kærum um refsivert brot starfsmanns lögreglu við framkvæmd starfa hans og fara með rannsókn málsins. Það var talsvert mikið fjallað um þetta atriði. Við bentum á það að 30. desember sendi umboðsmaður Alþingis innanríkisráðherra, sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu, bréf þar sem var komið á framfæri ábendingum er lutu að eftirliti með störfum lögreglu. Ráðherrann skipaði nefnd um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Þar er nefndinni falið að leggja mat á núverandi kerfi og lagareglur og gera tillögur að breyttu verklagi og lagabreytingum, eftir því sem við á. Búast má við því að nefndin skili af sér og við þurfum að taka umræðu um þær niðurstöður í nefndinni þegar þær tillögur líta dagsins ljós. Nefndinni var falið að gera tillögu að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem felst í móttöku og afgreiðslu kvartana og kæra vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni vegna athugasemda ríkissaksóknara við störf lögreglu og frumkvæðiseftirlit með störfum lögreglu. Þessari nefnd ber einnig að horfa til þess hvernig þessum málum er háttað hjá nágrannaríkjunum. Við í allsherjar- og menntamálanefnd ræddum þetta talsvert og hefðum kannski viljað fjalla nánar um þetta og gera nú þegar frekari breytingar, en við teljum rétt að bíða eftir að nefndin skili af sér og fögnum því að þetta sé til skoðunar og bendum á að mjög mikilvægt sé að þessari vinnu verði hraðað.

Það er alveg ljóst að frumvarp af þessari stærðargráðu hefur í för með sér talsverðar breytingar varðandi fjárhag þeirra stofnana sem hér um ræðir. Það komu fram ýmsar athugasemdir um þetta. Þar sem lögreglustjórum verður falið að höfða sakamál vegna fleiri brota en þeir gera nú töldu nokkrir umsagnaraðilar að frekari fjárheimildir þyrftu að koma til í ljósi stöðunnar hjá embættunum en þar væri mikill málahalli, sérstaklega hjá embætti ríkissaksóknara. Embættið hefur komið til okkar í nefndinni og lýst því hvernig staðan er og það er alveg ljóst að þar er talsverður bunki af málum. [Kliður í þingsal.] Get ég fengið aðeins betri þögn hérna til hliðar í salnum?

Það kemur fram hjá okkur að miklu skiptir að þessu nýja embætti séu tryggð nægileg úrræði og nægilegur mannskapur til að sinna þessum mikilvægu verkefnum sem embættinu er ætlað að taka við. Jafnframt er mjög mikilvægt að þeirri þekkingu sem byggst hefur upp varðandi saksókn í efnahags- og skattalagabrotum sé viðhaldið og að breytingarnar hafi ekki í för með sér að frekari dráttur verði á afgreiðslu og rannsókn mála og málsmeðferðartíminn lengist ekki enn frekar. Það er auðvitað von okkar að þegar þessar breytingar eru um garð gengnar þá gangi þetta allt saman smurt fyrir sig, en það er alveg ljóst að á meðan á breytingunum stendur er auðvitað nokkur hætta á því að það dragi úr málshraða og þess vegna er nauðsynlegt að grípa til viðeigandi ráðstafana.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir ákveðnum gildistökutíma. Við lögðum til í nefndaráliti okkar, sem var afgreitt út úr nefnd í lok mars, að gildistökunni yrði frestað til 15. júlí. Það er ljóst að þetta er hitt atriðið sem nefndin ætlar sér að skoða á milli umræðna og ljóst að við þurfum að breyta gildistökuákvæðinu enn á ný vegna þess að við erum fallin á tíma. Það tekur auðvitað tíma að framkvæma þessar breytingar.

Í örstuttu máli aðeins nánar um fjárhagslegu áhrifin. Það komu fram áhyggjur varðandi ríkissaksóknara og að það þyrfti að líta sérstaklega til þeirra auknu verkefna sem embættinu væri ætlað að sinna. En megintilgangurinn með frumvarpinu er að styrkja eftirlitshlutverk ríkissaksóknara með framkvæmd ákæruvalds hjá lægra settum ákæruvaldshöfum. Þetta eftirlitshlutverk felur í sér aukin verkefni hjá embættinu og við teljum að ef gert verður ráð fyrir minni tilfærslu fjárheimilda frá ríkissaksóknara til hins nýja embættis þá verði að mæta því með nýjum fjárheimildum til hins nýja héraðssaksóknaraembættis.

Við teljum að fjárþörf ákæruvaldsins í heild eftir þessar breytingar sem frumvarpið felur í sér sé metin með varfærnum hætti. Við teljum því brýnt að þær forsendur sem við reifum hér og sem birtast okkur í kostnaðarmatinu verði endurmetnar þegar lögin verða komin til framkvæmda og menn hafa áttað sig betur á því hvernig gengið hafi að innleiða breytingarnar og hver fjárþörfin sé þegar búið verður að vinna á þeim stabba mála sem nú bíða.

Frú forseti. Eins og ég hef sagt áður þá óska ég eftir því að þetta mál gangi aftur til nefndar vegna þessara tveggja atriða sem við ætlum okkur að skoða nánar, þ.e. varðandi hverjir það eru sem eru handhafar ákæruvalds og eins varðandi gildistökudagsetninguna.