144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[15:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál sem er viðamikið, eins og hv. þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar kom inn á. Við þurfum að taka það inn á milli umræðna, m.a. út af tveimur hlutum, eins og hún fór réttilega yfir. Annars vegar þarf að fara yfir það hverjir eru handhafar lögregluvalds og hins vegar er tíminn er varðar gildistöku þessara laga í rauninni útrunninn. Þetta snýr líka að því sem ég hef fjallað um á öðrum stað og varðar að leggja niður embætti sérstaks saksóknara, sem mér finnst ekki kominn tími á að gera, ekki frekar en Bankasýsluna.

Það er samt mjög margt gott í þessu áliti og frumvarpinu. Ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara um fjármögnun þess því að mér finnst þetta millidómstig sem við erum að setja á laggirnar geta komið til með að verða mjög gott og stytt verkferla til muna, sem ég held að sé þörf á hér á landi, að það verði vonandi ekki eins þungt í vöfum.

Það kemur líka fram í álitinu að ríkissaksóknari taki yfir mun fleiri verkefni en verið hefur fram til þessa. Þess vegna er mikilvægt að tryggja það að fjármunir fylgi. Það er verið að tala um ansi mikla fjármuni nú þegar sem fara í embætti ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara sem eru auðvitað með þung mál sem enn þá er verið að vinna. Við erum eftir á með mjög mörg mál hjá ríkissaksóknara, sérstaklega er varða kynferðisbrot gagnvart börnum.

Ríkissaksóknari hefur komið bæði til fjárlaganefndar og allsherjar- og menntamálanefndar og sagt að það þurfi aukna fjármuni til þess að tryggja meiri málshraða í þeim málum sem fyrir liggja. Þess vegna held ég að þrátt fyrir að þeir fjármunir sem eiga að myndast við það að embætti sérstaks saksóknara verði lagt niður, eins og hér er aðeins rakið, þá þurfi að koma mikið meira til. Hér er talað um 325 milljónir. Það er ekki gert ráð fyrir þeim. Ég átta mig því ekki alveg á því hvernig þetta á að fúnkera til áramóta og í framhaldinu verður væntanlega, á næsta ári, gert ráð fyrir auknum fjárframlögum. Mér finnst aðalmálið vera, með því að gera þetta svona, að við erum í rauninni að samþykkja að leggja aukið álag á ríkissaksóknara án þess að ætla að borga nægilega fyrir það. Embættið er nú þegar illa statt er varðar málshraða, eins og ég sagði varðandi kynferðisafbrot gegn börnum. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum koma þeim málum sem allra hraðast í gegnum ferlið.

Það kom ítarlega fram í samræðum okkar við viðkomandi aðila að þetta væri í rauninni óásættanlegt, en almennt eru aðilar þessara mála sáttir við það ferli sem er verið að fara í, þ.e. þessa breytingu. Sumir vildu ganga lengra og fara í þriðja dómstigið sem er ekki í boði núna en var búið að teikna upp og gera ráð fyrir. Ég held að við þurfum að setjast aðeins yfir það. Ég á alla vega erfitt með að samþykkja þetta óbreytt að því leyti er varðar fjármögnunina.

Ég tek undir það sem formaður nefndarinnar sagði að það er mjög mikilvægt einmitt í þeim skiptum sem verða þegar annað embættið verður lagt niður og verkefnin verða flutt yfir að það gangi snurðulaust fyrir sig út af mannauði, þekkingu og öðru slíku sem hefur myndast á þeim sérstöku málum sem hafa komið inn til sérstaks saksóknara. Þessum eftirhrunsmálum er ekki lokið og enn eru stór mál í gangi, eins og við þekkjum úr fjölmiðlum. Sérstakur saksóknari taldi, þegar hann kom á okkar fund, að það þyrfti ár til að ljúka þeim málum og hann var þá ekki að tala um önnur mál sem embættinu hafa borist á þessum tíma heldur einungis þessi stóru mál.

Mér sýnist að við séum komin vel áleiðis inn á árið til þess að þetta geti tekið gildi. Það þarf hvort sem er að endurskoða fjárhaginn. Það er auðvitað spurning hvort við komum með tillögu um að vísa þessu hreinlega í fjáraukalög eða hvort við ætlum bara að láta duga að taka það fram hérna og tryggja það í rauninni ekki betur en hér er gert. Það er ekki nóg að réttarbæturnar verði til staðar, mér finnst líka að það þurfi að vera til staðar sá hraði sem þarf að vera á málum ef þetta á að virka sem skyldi. Það er jú tilgangurinn að auka málshraða á sem flestum málum og að þau þurfi ekki öll að fara alla leið til Hæstaréttar. Það er í rauninni tilgangurinn að héraðsdómstólarnir geti tekið þau fyrir, klárað málin og það þurfi ekki að fara áfram heldur sé hægt að ljúka þeim á fyrri stigum. Til þess þarf auðvitað mannskap og hann fáum við ekki án þess að hafa fjármuni.

Frú forseti. Ég ætla ekkert að tala neitt lengur um þetta. Ég segi eins og formaðurinn, við tökum þann lið sem snýr að handhöfum lögregluvalds, sem við ræddum töluvert mikið og höfum ákveðið að taka inn til endurskoðunar aftur, og ræðum þegar breytingarnar verða komnar fram, sem ég held að verði til bóta.