144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[15:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er hið ágætasta mál. Ég er einn af þeim sem vilja ganga heldur lengra í átt að eftirliti með lögreglu og mér finnst mjög mikilvægt að hafa þrjú dómstig, en að því sögðu þá ber þetta mál auðvitað einkenni þess að það er nefnd að störfum eins og í mörgum öðrum málaflokkum þannig að maður tekur kannski ekki inn allar breytingar sem maður mundi vilja akkúrat á þessu stigi. Sem betur fer eru þessi mál í stöðugri athugun og sífellt verið að reyna að bæta sem mér finnst mjög gott. Mér finnst nauðsynlegt að taka fram við umræðu um þetta mál að við píratar höfum lagt fram þingsályktunartillögu um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu þar sem við sjáum fyrir okkur sjálfstæða stofnun sem sér um það verkefni og hefur það að hlutverki að hefja athugun að eigin frumkvæði og taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum. Sömuleiðis er alveg þess virði að nefna að þetta er algjörlega að lögreglumönnum ólöstuðum í sjálfu sér.

Tvennt annað tel ég gríðarlega mikilvægt til þess að bæta réttarstöðu borgaranna gagnvart lögreglu og það er annars vegar að það sé ekki mannekla í lögreglunni og hins vegar að menn fái almennilega borgað. Ég fullyrði hiklaust að mikið álag, mannekla og það að lögreglumenn upplifi starf sitt sem vanþakklátt auki líkurnar á leiðinlegum samskiptum við borgarana. Þetta er auðvitað allt saman bara fólk. Ég þekki það bara af vinnu minni hérna, ef ég er undir miklu álagi og tímapressu og finnst allt vera ósanngjarnt og óþolandi þá er miklu erfiðara að vera málefnalegur í sínum málflutningi, miklu erfiðara að vinna skipulega og faglega og af einhverjum heilindum þegar maður er í aðstæðum þar sem maður upplifir vanþakklæti og skilningsleysi. Mér finnst því mjög mikilvægt að það komi alveg skýrt fram að hugmyndin um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu er ekki í sjálfu sér gagnrýni á lögregluna heldur miklu frekar tillaga að því hvernig verði best búið um þetta þannig að réttindi borgaranna séu sem best tryggð og sömuleiðis að lögregla hafi sem besta leiðsögn og bestu tækifærin til þess að veita sína þjónustu án þess að það komi til leiðinlegra samskipta við borgarana. Þannig að ég vil undirstrika það að allar slíkar hugmyndir eru ekkert bara fyrir borgarana gegn lögreglunni, heldur einnig fyrir lögregluna sjálfa. Enda þótti mér mjög vænt um það þegar ég flutti málið að hv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem er fyrrverandi yfirlögreglumaður kom á eftir mér og tók undir þingsályktunartillöguna. Mér þótti mjög vænt um það, enda er þetta eins og ég segi ekki síst fyrir lögregluna sjálfa. Hún hefði sjálf mjög gott af því í sínu starfi að sjálfstæð stofnun væri til leiðsagnar og mörg af þessum vafaatriðum yrðu skýrð.

Ég vil meina að í litlu samfélagi eins og er á Íslandi eigum við oft við að etja alls konar vandamál sem fengju kannski öðruvísi meðferð í samfélögum sem eru mun stærri og fjölbreyttari. Ég held að á Íslandi almennt, ekki bara innan lögreglunnar, heldur almennt, sé tilhneiging í hverjum iðnaði, á hverjum starfsvettvangi innan tiltekinna hópa til að það skapist einhvers konar vináttumenning og það gerir held ég sjálfsskoðun stofnana af ýmsu tagi, ekki bara lögreglunnar heldur líka Alþingis og margra annarra, miklu erfiðari en ella og í raun og veru óhnitmiðaðri. Af þeim ástæðum meðal annars tel ég mjög skynsamlegt að hafa sjálfstæða stofnun fyrir þessa hluti.

Það er einhvern veginn líka þannig að fólk sér ekki sjálft sig eins og annað fólk sér það. Maður sér bara út um augun eins og ég segi stundum. Það sama gildir um lögregluna, nema að lögreglan er sérstök stofnun að því leyti að hún er eina stofnunin sem hefur beinlínis heimild til þess að beita ofbeldi. Það er vitaskuld vegna þess að það er nauðsynlegt eins og allir vita. En þess vegna er einmitt mikilvægt að við spörum ekki þegar kemur að því að vernda réttindi borgaranna gagnvart slíkum stofnunum. Þá ítreka ég enn og aftur að þetta er algjörlega hugsað til þess að hjálpa lögreglunni að vinna sín störf í sem mestum friði og í sem mestri samvinnu við borgarana, sérstaklega þá erfiðu. Ef þeir skjólstæðingar sem lögreglan upplifir sem erfiða eða hreinlega eru erfiðir, við vitum það alveg að það er til erfitt fólk, ef það fólk upplifir réttarstöðu sína sem sterka, ef það upplifir málaflokkinn þannig að það hafi greiðan aðgang að aðstoð við að leita réttar síns, ekki bara vegna meintra lögbrota sem einstaka lögreglumenn gætu framið heldur einfaldlega hvort rétt hafi verið staðið að hlutunum og hvort rétt vinnubrögð hafi verið höfð í heiðri, þá gerir það hlutina auðveldari. Það er eitt af því sem tillaga okkar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu felur í sér, það er að rannsaka einnig og athuga vinnubrögðin einfaldlega, alveg óháð því hvort þau séu beinlínis lögbrot eða ekki.

Það er í raun og veru ekki fleira sem mig langaði að segja um þetta mál. Ég held að það sé til bóta þótt mikið verk sé eftir. Ég hlakka til að sjá hvað kemur úr vinnu hv. nefndar sem fjallar um málaflokkinn eins og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar fór inn á hérna áðan. Þá býst ég fastlega við því að sú þingsályktunartillaga sem ég nefndi þurfi að koma til aftur á næsta þingi þar sem hún verður væntanlega ekki afgreidd á þessu þingi sökum tímaskorts.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.