144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[15:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á þetta mál sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála, lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti og fleira og lögum um dómstóla (einföldun réttarfars). Svo langt var það.

Við í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar eins og kom fram af hálfu framsögumanns höfum undirritað álitið með fyrirvara sem snýr að Barnahúsi, en ég ætla aðeins að fara í gegnum málið áður en ég kem að því.

Málið er í heild sinni mjög gott. Þar er verið að styrkja stöðu barna að mörgu leyti, þó kannski ekki nægjanlegu að okkar mati. Við ræddum það einmitt mikið í nefndinni, ekki bara aldurstakmarkið. Þrátt fyrir að sakhæfisaldur sé 15 ára þá er auðvitað vert að spyrja sig hvort breyta eigi þeim lögum. Við þurfum að horfa svolítið á lagasafnið í heild, af hverju við miðum við eitt hér en annað þar, hér teljast börn vera börn þangað til þau eru 18 ára, en það á samt sem áður bara stundum við. Þá er ég að vísa í það að þegar verið er að taka skýrslur af börnum þá fara þau sem eru orðin eldri en 15 ára ekki í sérútbúið húsnæði eða neitt slíkt.

Það liggur auðvitað fyrir að það getur verið íþyngjandi að taka skýrslur af börnum sem hafa lent í erfiðum málum og þurfa jafnvel í ofanálag að ferðast suður til Reykjavíkur, hafi brotið átt sér stað úti á landi, þá er verið að leggja aukaferðalag á þann sem málið snýr að. Það er því kannski tvíbent að ekki sé gert ráð fyrir sérútbúnu húsnæði í landshlutunum, hjá stærstu dómstólunum eða eitthvað slíkt. Hér er talað eingöngu um sérútbúið húsnæði en við sem gerðum þennan fyrirvara töldum réttara að nota orðalagið „Barnahúsi eða öðru sérútbúnu húsnæði“ til að styrkja starfsemi Barnahúss. Þó er að okkar mati ekki til staðar nógu víða sérstök aðstaða fyrir börn sem hafa orðið fyrir því að á þeim er brotið, þau geti farið í öðruvísi umhverfi en dómhús eða lögreglustöð.

Hér er líka fjallað um hámarkslengd ákæru, enda er þetta samsett mál. Embætti sérstaks saksóknara vildi að fallið yrði frá því að setja reglur um hámarkslengd ákæru og vildi láta setja viðmið í staðinn um hámarkslengd sem mundi opna á þann möguleika að rökstyðja nauðsyn þess að ákæra væri lengri en reglur dómstólaráðs segðu til um. Þetta var eins og flest í þessu máli vel rætt. Nefndin var þessu ekki sammála og taldi að það þyrfti að setja reglur um þetta. Þetta kemur til af því að nú eru stór mál eins og við þekkjum sem hafa verið inni á borðum dómstólanna og ákærurnar eru nánast í formi bókarskrifa, þetta eru ekki einu sinni skýrslur, þetta eru orðnir svoddan doðrantar að það er eiginlega til þess fallið að teygja á málaferlum og öðru slíku. Maður skilur þær hvatir sem liggja að baki því að það geti þurft að stemma stigu við þessu. En hér er lagt til að dómstólaráð hafi samráð við embætti sérstaks saksóknara, ríkissaksóknara og Lögmannafélagið vegna þeirra reglna sem setja á varðandi þetta atriði.

Síðan er fjallað um almenna meðferð máls fyrir dómi sem varðar útivistarfyrirköll. Fyrir mér sem kom að dómsmálum í fyrsta sinn í þessari nefnd, en við höfum fjallað um eitt og annað, þá var margt í orðfærinu snúið og þetta var eitt af því. Nefndin leggur til þá orðalagsbreytingu, með leyfi forseta, „að afgreiða megi mál með útivistardómi, jafnvel þótt ákærði hafi mætt við þingfestingu samkvæmt löglega birtri ákæru, ef þingsókn fellur niður af hans hálfu síðar“.

Maður spurði sig: Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það var alveg ástæða til að ræða það og þetta þýðir í rauninni að það megi kveða upp dóm í málinu hvort sem viðkomandi sækir dómþingið eða ekki á fyrri eða síðari stigum. Mér fannst ágætt að fara í gegnum þetta og átta mig á þessu af því að auðvitað er þetta fyrst og fremst lögfræðilegt orðfæri sem þessi mál eðli málsins samkvæmt fjalla um.

Í 27. gr. er fjallað um dómsúrlausnir héraðsdóms, það varðar endurrit. Þetta var líka eitt af því sem maður veltir kannski ekkert sérstaklega fyrir sér dags daglega að dómsorð sé lesið upp í sama þinghaldi, þ.e. um leið og afstaða sakbornings liggi fyrir sé hægt að lesa yfir honum dómsorð. Auðvitað þarf að vera til endurrit af dómsorði, en það voru ekki til reglur fyrir því að endurritið þyrfti að liggja fyrir innan einhvers tiltekins tíma. Það var óskað eftir því að því yrði breytt og nefndin féllst á það og leggur til að endurrit dóms þurfi að liggja fyrir innan viku frá uppkvaðningu hans.

Svo að lokum er það, virðulegi forseti, breyting varðandi endurupptöku mála. Þótt hér sé ekki verið að opna á mál langt aftur í aldir, þá erum við samt sem áður að styrkja réttarstöðu fólks til þess að taka upp mál sem eru orðin afar gömul og jafnvel þeir fallnir frá sem málið snýr að. Allir þeir sem sækja um þetta skuli njóta sömu réttarstöðu og sá sem var dæmdur á sínum tíma í málinu, þeir hafi þann rétt að fá skipaðan lögmann og sá kostnaður sem af því hlýst falli undir sömu reglur og ef sá hinn sami sem málið var höfðað gegn eða dómfelldur var hefði höfðað það. Það er rétt að árétta að endurupptökunefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og þarf að setja sér starfsreglur um það hvaða tilteknu mál geti fallið undir þetta eins og ég nefndi hér, fólk getur beðið um mál X-langt aftur í tímann eða tiltekin mál, en þá er það í höndum endurupptökunefndar að meta hvort þau falli innan þeirra reglna sem ætlunin er að þessi lög taki tillit til.