144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[15:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Þetta var málið sem við vorum að ljúka við áðan, svo að hv. þingmaður sé meðvitaður um það, en ég er fús til þess að svara þeim spurningum sem hér eru upp bornar af því að þetta er einmitt það sem ég vakti athygli á. Ég sat í nefndinni sem hv. þm. Geir Jón Þórisson sat í. Hann var á þingi á þeim tíma þegar mikilvægt var að fá innsýn í, eins og hv. þingmaður nefndi, reynslu hans og störf varðandi eftirlit með lögreglu. Ég held að lögreglan eins og aðrir hafi gott af því að gott utanumhald sé um það sem snýr að starfi þeirra og umbúnaði þess. Við viljum auðvitað að vel sé farið með kvartanir sem lögreglan fær vegna starfshátta sinna eða annað slíkt, þannig að lögreglan geti áfram staðið vörð um okkur sem þegna og samfélagið sem slíkt. Þetta frumvarp hér tekur ekki á því nema að hluta til, eins og hv. þingmaður benti á, vegna þess að þetta ákvæði er enn þá til skoðunar. En við hljótum að fylgja því eftir, það er hlutverk okkar í nefndinni að gera það.

Hvað varðar fjárhagslegu hliðina er hún einmitt ástæðan fyrir því að ég undirrita þetta með fyrirvara. Hv. þingmaður, samflokksmaður hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, var fjarstaddur þarna en ég veit að hann var með svipaðan fyrirvara og ég varðandi fjármögnunina. Ég fór vel yfir það í ræðu minni áðan að ég er óhress með það að hér sé verið að leggja niður embætti, það er vitað mál að ríkissaksóknari er í erfiðri stöðu nú þegar (Forseti hringir.) með sín mál.