144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

forsendur stöðugleikaskatts.

[10:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta er svolítið sérkennileg fyrirspurn en kemur ekki að öllu leyti á óvart fyrir þá sem lesa blogg og facebook-færslur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. En það er eins og hv. þm. Árni Páll Árnason hafi verið að stíga hér út úr tímavél, því að maðurinn er búinn að fjalla heilmikið um kosti þeirra leiða sem hér eru til umræðu og síðast þegar ég vissi taldi hv. þingmaður að hann og ríkisstjórn hans hefðu verið búin að leggja þetta allt upp með þessum hætti. En jæja, nú á greinilega að fara niður þá braut að reyna að skapa efasemdir um þetta allt saman. Gott og vel, þá tökum við þá umræðu.

Eins og hv. þingmaður veit reyndar mætavel þá er munurinn á stöðugleikaskattinum og stöðugleikaskilyrðunum sá að stöðugleikaskilyrðin laga sig að umfangi vandans og þar af leiðandi fer sú upphæð sem þar er um að ræða eftir umfangi vandans. Til viðbótar við stöðugleikaframlagið, þetta beina framlag sem er kannski í kringum 500 milljarða kr., bætast við ýmsir liðir aðrir. Svo ég nefni eitt dæmi þá bætist þar við hlutdeild ríkisins í hugsanlegri verðmætaukningu eigna kröfuhafanna, ekki hvað síst bankanna þriggja. Þannig að á heildina litið geta upphæðirnar sem um ræðir í samningaleiðinni eða stöðugleikaskilyrðaleiðinni orðið hærri en upphæðirnar sem um ræðir í skattinum, ef það reynist vera það sem þarf til þess að fást við umfang vandans. Með öðrum orðum, virðulegur forseti, stöðugleikaskilyrðin eru til þess hönnuð að tryggja að upphæðin sem um ræðir verði nógu há, sama hversu stórt vandamálið reynist.