144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

ummæli ráðherra um hótanir kröfuhafa.

[10:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef alloft lýst ýmsu í framgöngu kröfuhafa, þessara vogunarsjóða sem þarna er einkum um að ræða, og þeim aðferðum sem þeir beita til að verja hagsmuni sína. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skuli nú loks taka þessa umræðu alvarlega. Það hefði mátt gera það svo sannarlega miklu fyrr. Hótanir af ýmsu tagi hafa legið í loftinu, ekki bara í þessu máli heldur sáu jafnvel stjórnmálamenn um það að bera okkur hótanir í tengslum við deilur um Icesave-málið þar sem því var haldið fram af sumum stjórnmálamönnum og ýmsum álitsgjöfum að það færi illa fyrir Íslandi á allan mögulegan hátt ef við létum ekki undan þrýstingi um að taka á okkur Icesave-kröfurnar. Svipaða umræðu hefur verið reynt að setja af stað í tengslum við þetta mál í fjölmiðlum og í umræðu annars staðar, en við höfum ekki í þessu máli, frekar en í Icesave-málinu, látið slíka tilburði hafa nokkur einustu áhrif á okkur, enda væri það algjörlega óásættanlegt fyrir sjálfstæða þjóð að láta slíkar aðferðir hafa einhver áhrif á ákvörðunartöku.