144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[10:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi á þessum mánudagsmorgni fá að inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir stöðu mála í heilbrigðiskerfinu okkar sem við höfum öll haft verulegar áhyggjur af á undanförnum missirum. Nú hafa verið gerðir kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga þó að atkvæðagreiðslu um þá sé enn ólokið. Ég vildi inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því hvort kjarasamningur sá sem gerður var hafi orðið til þess að einhverjir hjúkrunarfræðingar hafi dregið uppsagnir sínar til baka eða hvort á hinn bóginn hafi heldur bæst í þær, og þá hvert umfang uppsagnanna er í dag. Sömuleiðis hver staðan í heilbrigðiskerfinu verður gangi þessar uppsagnir eftir og hvaða áætlanir hæstv. ráðherra hefur gert til þess að bregðast við þeirri stöðu sem þá kann að koma upp. Sömuleiðis hvort ráðherra hafi lagt eitthvert mat á það eða kannað með einhverjum hætti hvert þetta góða starfsfólk okkar er að leita, hvort það er að leita til starfa í öðrum löndum, hvort það er að leita yfir í betur launuð störf í einkarekinni heilbrigðisþjónustu eða út úr sínu fagi yfir höfuð.