144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[10:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem liggur fyrir um uppsagnir hjúkrunarfræðinga er einfaldlega sú staða sem við höfum fengið í fjölmiðlum, það að uppsögnunum fjölgaði eftir lagasetningu og núna í framhaldinu hafa líka dregist inn aðeins fleiri uppsagnir. Ég hef ekki nákvæma tölu á þessu akkúrat í dag en þetta eru um 200 uppsagnir hjúkrunarfræðinga. Við höfum eðlilega farið yfir þetta mál í ráðuneytinu með Landspítala á samráðsfundum og einnig hef ég tekið þetta sérstaklega upp við forstjóra Landspítalans sem ber þyngstu byrðarnar í þessu, þótt við höfum uppsagnir á fleiri heilbrigðisstofnunum en eingöngu á Landspítalanum er þunginn þar mestur.

Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum um viðbrögð forstjóra Landspítalans þá metur hann stöðuna á þann veg að engin ástæða sé til þess að líta á þetta sem einhverja neyð, hann hafi ekki ástæðu til að undirbúa sérstaka viðbragðsáætlun fyrr en spítalinn sér betur hver raunveruleg uppsagnahrina verður, þ.e. hversu margar af þessum uppsögnum ganga eftir. Á þessu stigi er útilokað með nokkrum hætti að mati forstjóra að leggja mat á það hversu margar uppsagnir verða að veruleika eða hversu margar uppsagnir verði dregnar til baka.

Áætlun um viðbrögð mín eða ráðuneytisins (Forseti hringir.) byggir á því mati sem innan heilbrigðisstofnananna er unnið og þá sérstaklega Landspítalans.