144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Breytingin felur í sér að gildistöku laganna verði frestað til 1. janúar 2016 og því er gert ráð fyrir að lög nr. 44/1999, um náttúruvernd, haldi gildi sínu til sama tíma.

Með samþykkt laga nr. 23/2014, um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, var gildistöku laganna frestað til 1. júlí 2015. Í kjölfarið hófst vinna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu við endurskoðun ákveðinna kafla náttúruverndarlaga með hliðsjón af nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá 19. febrúar 2014.

Nefndin komst að samkomulagi um að leggja áherslu á tiltekin ákvæði laganna og tryggja um leið innbyrðis samræmi milli ákvæða. Í lokaniðurstöðu nefndarálits lagði nefndin til að byggt yrði á fyrirliggjandi vinnu, þeirri heildarhugmyndafræði sem liggur lögunum til grundvallar og á þeim sjónarmiðum að reynt sé að ná aukinni sátt um lokaniðurstöðu. Í samræmi við niðurstöðu nefndarálits voru sérstaklega skoðuð ákvæði um sérstaka vernd, varúðarreglu, almannarétt, framandi lífverur og utanvegaakstur. Ráðuneytið átti umfangsmikið samráð við stofnanir, fagaðila og umhverfis- og samgöngunefnd við þá endurskoðun. Setti ráðuneytið á fót sérstakan samráðshóp ólíkra aðila til að starfa með ráðuneytinu og vera því til ráðgjafar. Ráðuneytið hefur að auki notið aðstoðar Aðalheiðar Jóhannesdóttur, prófessors í umhverfis- og auðlindarétti, við endurskoðun laganna.

Ráðuneytið hefur átt mikla og góða samvinnu við nefndina og farið á fjóra fundi til að upplýsa um framvindu málsins og heyra sjónarmið nefndarmanna. Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um náttúruvernd voru birt á vef ráðuneytisins 10. mars síðastliðinn og var umsagnarfrestur við frumvarpið til 20. mars. Að loknu umsagnarferli var gengið frá drögum að frumvarpi. Í ljósi þess skamma tíma sem þá var til loka vorþings fyrir svo veigamikið frumvarp var talið að ekki gæfist nægur tími til að afgreiða það fyrir þinglok þannig að tryggt yrði að málið fengi vandaða og ítarlega meðhöndlun sem nauðsynlegt er. Náttúruverndarlög eru grundvallarlöggjöf á sviði umhverfismála og mikilvægt að frumvarpið fái góða umfjöllun á Alþingi til að skapa sem mesta sátt um það.

Frumvarp þetta um frestun á gildistöku laga um náttúruvernd er því lagt fram þannig að gildistöku náttúruverndarlaga nr. 60/2013 verði frestað til 1. janúar 2016. Þannig er lagafrumvarpið lagt fram, en ég vil taka það fram að í viðræðum við nefndarmenn í hv. umhverfisnefnd hefur verið talað um að flýta kannski gildistöku til 1. mars þannig að umræðan um náttúruverndarlögin lendi ekki í desemberóróanum. En ég hef sem sagt síðan í hyggju að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd næsta haust með gildistöku 1. janúar 2016 og vísa ég í það sem ég sagði áðan. Umhverfis- og samgöngunefnd mun hafa drög að því frumvarpi til skoðunar í sumar.

Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.