144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það var sumt óljóst í hennar orðum og þess vegna óska ég eftir að fá greinarbetri lýsingu á sýn hennar á tímalínunni sem fram undan er samkvæmt því frumvarpi sem lagt er fram. Þar er gert ráð fyrir gildistöku laganna frá 2013 sé frestað til 1. janúar 2016 en samkvæmt niðurstöðu og samkomulagi um þinglok þá gerum við ráð fyrir að gildistímanum sé frestað til 15. nóvember 2015 eins og ég skil samkomulag um þinglok. Þetta kom ekki skýrt fram í máli ráðherrans þannig að ég óska eftir að hún árétti það.

Síðan er væntanlega gert ráð fyrir að ráðherrann komi með nýtt frumvarp til laga um náttúruvernd snemma á haustdögum og þá hafi nefndin tíma til að afgreiða málið fyrir sitt leyti og koma því til afgreiðslu á Alþingi. Ég vil biðja ráðherrann um að árétta sinn skilning á þeirri tímalínu sem fram undan er svo að það sé alveg klárt að við séum á sömu blaðsíðu að því er varðar þann tíma sem fram undan er og gildistökuna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra líka um það sem kemur fram í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að hvorki sé gert ráð fyrir þeim útgjöldum sem fylgja gildistöku laganna í fjárlögum ársins 2015 né í langtímaríkisáætlun. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort einhvern tíma hafi annað staðið til en að fresta gildistökunni áfram þar sem svo virðist sem ekki sé gert ráð fyrir því, hvorki í bráð né lengd, að auknu fjármagni verði ráðstafað til nýrra laga um náttúruvernd.