144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar spurningar og ábendingar. Ef eitthvað er óljóst sjálfsagt að reyna að skýra það.

Hér er til meðferðar og ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 1313 sem er 751. mál. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„1. málsl. 1. mgr. 94. gr. laganna orðast svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.“

Ég gat um það í framsögu minni að með viðræðum við nefndarmenn úr umhverfis- og samgöngunefnd hefði komið fram að það væri eðlilegt og sjálfsagt að reyna að flýta gildistökunni. Ég nefndi dagsetninguna 1. desember en varðandi tímalengd finnst mér sjálfsagt að nefndin fari yfir það og ef það verður fallist frekar á 15. nóvember þá tel ég að það sé fyrst og fremst nefndarinnar að segja til um það og allt í hinu góða ef það tekst að vinna það þannig að gildistakan geti átt sér stað 15. nóvember. Það kemur ekkert annað til greina ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu. Enginn er fúsari til þess en ég. Ég nefndi 1. desember svo að við hefðum aðeins meiri teygjanleika en við féllum samt ekki inn í desemberóróann, eins og ég leyfði mér að nefna það.

Ég held að kostnaðarmat sé eins og með önnur frumvörp, að menn vilji hafa skýrari línur í því frumvarpi sem á að kostnaðarmeta áður en þeir gera það. Það verður náttúrlega gert við þetta frumvarp eins og öll önnur þegar það liggur ljóst fyrir hvaða breytingar hafa verið gerðar á því eða hvernig hið nýja frumvarp lítur út.