144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar, það var gott að fá þær. Svo sannarlega hefur þetta mál verið í forgangi, bæði hjá fyrrverandi umhverfisráðherra, núverandi umhverfisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ég hef sagt það nokkrum sinnum í ræðustól að ég held að ráðuneytið hafi unnið sérstaklega vel að þessu frumvarpi í vetur. Það hefur reynt að teygja sig og toga til að ná sátt, sem við höfum kallað. Þegar verið er að reyna að ná sátt á milli margra aðila þarf að liggja vel yfir málunum og vanda sig og það hefur akkúrat verið gert. Það getur tekið tíma sinn og það er engin óánægðari en sú sem hér stendur með að ekki tókst að leggja frumvarpið fram núna á vorþingi.

Við sendum frumvarpið út til umsagnar í marsmánuði og höfðum reyndar umsagnarfrestinn nokkuð stuttan til að reyna að ná frumvarpinu inn á þing. Þegar við vorum að fara yfir það sem við fengum frá umsagnaraðilum kom í ljós að tímafresturinn var liðinn, við náðum frumvarpinu ekki inn fyrir 1. apríl. Þá fannst mér betra að koma með frestunarfrumvarp til að láta tímaskort ekki hamla góðri umfjöllun hér á Alþingi. Forgangurinn er 100%. Við viljum þessu verki allt hið besta, viljum vanda það og þess vegna viljum við fá það inn á Alþingi þegar góður tími gefst til að ræða það út frá öllum sjónarmiðum þannig að allt komist að. Ég vil því ekki fá þannig glósur að ekki sé unnið vel að þessu frumvarpi, þannig er það ekki.

Varðandi fjárlögin er erfitt að segja nákvæmlega til um það. Það er stundum dálítið erfitt að eiga við svona kostnaðarmat, en ég tel að fólk hafi verið að bíða eftir að fá endanlegt (Forseti hringir.) frumvarp í hendurnar (Forseti hringir.) til að geta kostnaðarmetið það rétt.