144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á síðasta kjörtímabili sat ég í umhverfis- og samgöngunefnd, eins og á þessu kjörtímabili, og kom að því að vinna að lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem nú er verið að leggja til öðru sinni að frestað verði gildistöku á. Í lokaaðdraganda þeirrar lagasetningar, sem sagt vorið 2013, var gert samkomulag um sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu málsins, sem fól í sér meðal annars að frestað yrði gildistöku inn á næsta kjörtímabil og við erum enn þá stödd í þeim sporum, í þeirri ákvörðun. Ég var reyndar sjálfur mjög ósáttur við að menn skyldu fara þá leið. Það voru gerðar aðrar breytingar sem ég var jafnframt ósáttur við, einn þingmanna eins og þingtíðindi sýna fram á ef menn skoða atkvæðagreiðslur í þessu máli.

Lög nr. 60/2013 voru gríðarlega mikilvæg. Í þeim fólst meðal annars að menn leiddu í lög meginreglu umhverfisréttarins, hina svokölluðu varúðarreglu um að náttúran skyldi njóta vafans þegar ákvarðanir væru teknar sem gætu haft neikvæð áhrif á náttúruna. Þetta er gríðarvíðfeðmur lagabálkur sem kveður á um innflutning á framandi lífverum, um landnýtingu, um almannaréttinn, hinn forna rétt Íslendinga til frjálsrar farar um landið, þannig að það skiptir mjög miklu máli hvernig á þeim spilum er haldið.

Síðastliðið vor var ákveðið í ágætri sátt innan umhverfis- og samgöngunefndar að fresta gildistöku laganna sem áttu að taka gildi um vorið, eins og núna. Í raun er það þannig að að óbreyttu munu þessi lög taka gildi 1. júlí ef það frestunarfrumvarp sem við fjöllum um núna nær ekki fram að ganga. Samningurinn eða samkomulagið sem menn hafa gert sín á milli, stjórn og stjórnarandstaða, felst í því að stjórnarandstaðan gefur eftir rétt sinn til að ræða málið og þá er auðvitað allt undir, lög nr. 60/2013, frestun laganna á síðasta ári og frestun laganna á þessu ári. Ég mundi gera ráð fyrir að slík umræða tæki allnokkurn tíma færi hún fram undir eðlilegum formerkjum. Til að menn séu tilbúnir til þess að gefa frá sér þann rétt sem þeir eru kjörnir til að bera fram hér og hafa í þingsal, til að gefa frá sér að vera fulltrúar sjónarmiða á grundvelli hverra þeir voru kosnir hingað inn, þá þarf eitthvað að koma í staðinn. Þess vegna gera menn samkomulag sem felur ekki meira í sér að þessu sinni en að frestunin nái ekki lengra en til 15. nóvember næstkomandi. Af hverju gera menn það? Jú, vegna þess að í þeim hópi sem gerir þetta samkomulag eru þingflokksformenn sem vita nákvæmlega hvað til síns friðar heyrir þegar kemur að desembermánuði, þegar kemur að lokum nóvember og í hvaða stöðu við erum, því miður, ítrekað stödd í í þinginu þegar mál eru til lykta leidd. Það væri þess vegna ekki málinu til framdráttar, því að við vitum hvernig hlutirnir æxlast og hafa tilhneigingu til að æxlast í þinginu, að vera að reyna að ljúka því í þeirri jólaös sem myndast í lok árs. Þess vegna hafa tveir þingflokksformenn, þar á meðal hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, og sá sem hér stendur, lagt mikla áherslu á að málinu verði forðað frá þeim örlögum.

Það gefur okkur að vísu mjög nauman tíma, það er rétt, á haustþingi. Það kallar eftir því að ráðherrar hafi það fastlega í huga að á fyrstu dögum haustþingsins verður málið að vera lagt fram, þ.e. ný náttúruverndarlög eða breytingar á lögum nr. 60/2013. Þá tekur við umsagnartími og síðan gestakomur í nefnd og væntanlega verður málið afgreitt í aðdraganda þess að lögin mundu annars taka gildi 15. nóvember. Tímapressan er þannig heimatilbúin og ég held að hún sé mjög jákvæð í þessu tilliti.

Það ber efnisleg ekki mjög mikið í milli. Þær breytingar sem ráðuneytið hefur gert á lögunum fela í sér að hin mikilvæga meginregla um varúðina í umgengni við náttúruna er þrengd nokkuð. Það er miður að mínu mati og skýtur að vissu leyti svolítið skökku við vegna þess að innan svokallaðrar stjórnarskrárnefndar, þar sem ég hef tekið þátt í vinnu að mögulegum breytingum á stjórnarskránni, hefur verið fjallað um að setja varúðarregluna inn í umhverfiskafla og náttúruverndarkafla stjórnarskrárinnar og auðvitað þyrfti varúðarregla sérlaganna, náttúruverndarlaga að endurspegla þá grein stjórnarskrárinnar og væri háðulegt ef hún næði miklu skemur en þessi meginregla ef hún væri orðuð í stjórnarskrá. Það er atriði sem þarf að huga sérstaklega að.

Almannarétturinn er líka málefni sem við þurfum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um. Ég tel að um hann ríki ekki flokkslegur ágreiningur. Ég held að það séu sjónarmið þar sem þurfi að skýra. Í mínum huga er mikilvægt að mikill og aukinn fjöldi ferðamanna og ásókn í óspillta og hreina náttúru verði ekki til þess að hafa þennan rétt af Íslendingum, verði ekki til þess að möguleikar manna til að ferðast um eigið land verði þrengdir vegna þess að ferðamenn eru nú mun fleiri að fara um landið en oft áður. Að sama skapi verður auðvitað að verja rétt landeigenda til að skipuleggja og nýta sitt eigið land. Það er samspil þarna á milli sem þarf að huga að. Það þarf að huga að kaflanum um sérstaka vernd og þessi þrjú meginatriði eru í mínum huga lykilatriði þegar kemur að lúkningu þessa máls í haust. Ég tel að við munum hafa nægan tíma til þess.

Ég vil í lok máls míns fara yfir það sem hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra og formanns umhverfisnefndar um hið mikla og góða samstarf milli ráðuneytisins og nefndarinnar. Ég er ekki sammála því að það hafi verið mikið og gott. Það var góð sátt síðasta vor þegar við afgreiddum frestunina í umhverfisnefndinni vegna þess að hún var á grundvelli samkomulags og samtals. Í vetur hafa farið fram fjórir fundir milli umhverfisnefndar og ráðuneytisins. Að minnsta kosti tveir þeirra voru kynningarfundir af hálfu ráðuneytisins, hinir tveir síðari hugsanlega einhvers konar samtal þar á milli og þar að auki höfum við hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fundað tvívegis með hæstv. umhverfisráðherra um efni þessa máls, aðallega til að ná niðurstöðu um gildistöku eða frestun tímasetningarinnar. Þegar samkomulag var gert í nefndinni við þáverandi umhverfisráðherra síðastliðið vor um frestun laganna fól það í sér að nefndinni yrðu sýnd drög að þingmáli á hausti 2014. Það var ekki gert. Þess í stað barst nefndinni það til eyrna að búið væri að birta drög að þingmáli á vef ráðuneytisins þar sem óskað var umsagna. Það eru í sjálfu sér jákvæð vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins að vinna málið á þann hátt en það var ekki í samræmi við það samkomulag sem gert hafði verið við nefndina, kom mjög flatt upp á okkur í nefndinni og skapaði ákveðna tortryggni og vantraust á milli nefndarmanna og ráðuneytisins í þeim efnum. Það var óheppilegt.

Þar að auki hefur hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar, mistekist þetta vorið að ná sömu sátt í nefndinni og honum tókst þó á síðasta vetri. Þar ræður ýmislegt en gríðarleg áhersla á mál sem ljóst mátti vera frá upphafi vega að aldrei mundu hljóta framgang hér í þinginu, eins og færsla skipulagsvalds yfir flugvellinum í Reykjavík frá sveitarfélaginu til Alþingis, olli því að mikill tími fór í súginn og lítið varð um sættir innan nefndarinnar, því miður. Þar að auki hefur reynst gríðarlega erfitt fyrir þingmenn að vinna málum sínum brautargengi innan nefndarinnar vegna þessarar áherslu. Það er ósk mín að við náum að vinna aðeins betur innan nefndarinnar vegna þess að ég veit að hv. þingmanni er umhugað um sáttina en sáttin er auðvitað þannig að hún getur ekki verið á grundvelli eins og hún er ekki fengin einungis með fjölda funda. Hún er fengin með því að fólk hlusti hvert á annað. Hún er fengin með því að fólk sé tilbúið til að gefa eftir, eins og hæstv. umhverfisráðherra hefur gert í þessu máli og fram kom í framsöguræðu hennar og svörum eða andsvörum áðan, það er auðvitað þannig að menn ná sátt og samkomulagi með því að báðir gefa svolítið eftir. Hér hafa stjórnarandstöðuþingmenn gefið eftir rétt sinn til að halda margar og ítarlegar ræður um grundvallarlög í landinu sem snerta ekki aðeins hagsmuni kynslóðar okkar heldur komandi kynslóðar, mál sem munu hafa áhrif á það hvernig störf okkar verða skoðuð í framtíðinni og ákvarðanir okkar. Það er ekki einhver lítill hlutur að gefa það eftir og ég bið hv. þingmenn, og sérstaklega hv. stjórnarþingmenn, að gera sér grein fyrir því og taka mið af því. Ég heyri að nefndarmenn stjórnarinnar innan umhverfis- og samgöngunefndar, þingmenn eins og hv. þm. Haraldur Einarsson, eru sáttir við þá niðurstöðu að frestunin nái eingöngu til 15. nóvember. Ég veit að hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur sett stafina sína við það samkomulag og það nægir mér fullkomlega.

Það kom líka berlega í ljós áðan að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er ekki sáttur við þá ákvörðun. Hann ætlar að mótmæla þeirri ákvörðun og reyna að hafa einhver áhrif á niðurstöðuna. En orð skulu standa. Samkomulagi hefur verið náð og ef menn eru ósáttir við það samkomulag þá verða þeir að eiga það við sinn eigin þingflokk og sinn eigin hv. þingflokksformann og komast að niðurstöðu þar áður en þeir fara að setja samkomulag og samninga sem náðst hafa í uppnám hér í þingsalnum og hafa þannig áhrif á þingstörfin öll. Málið sem um ræðir er stærra en við öll og stærra en stundarhagsmunir einstakra þingmanna eða sjálfsálit einstakra þingmanna eða sjálfsmynd þeirra, hvort þeir þurfa að gefa eftir eða ekki. Samkomulag felur í sér að menn gefa eftir, það heitir málamiðlun og ég held að það sé mjög mikilvægt veganesti fyrir umhverfisnefndina og þess vegna liggur þetta svona og ég vona að okkur gangi vel að vinna þetta mál í haust.