144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kom hér upp í andsvar við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra áðan og benti á þá staðreynd að það hlýtur að vera mikilvægara þegar við ræddum um jafn stórt og mikilvægt mál að við fjöllum efnislega um málið en að við séum að einbeita okkur að einhverjum tímafresti, það hlýtur að vera. Ég benti á það í ljósi þingreynslu minnar að það gæti verið að 15. nóvember mundi ekki duga til að klára þetta mál.

Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að það hafi verið fullkomið samkomulag um að fresta gildistökunni núna 1. júlí og það kom mér verulega á óvart að það skyldi vera hluti af einhverjum samræðum á milli þingflokksformanna hvort það yrði að veruleika eða ekki. Í mínum huga, ef lögin hefðu tekið gildi núna 1. júlí 2015, hefði öll sú vinna sem lagt hefur verið af stað með ónýst, öll eins og hún leggur sig. Ég heyrði það reyndar á einhverjum aðilum að þeim hugnaðist það bara ágætlega en þá vil ég benda á að þetta snýst kannski ekki bara um viðhorf manna til náttúruverndar eða spurninguna hvort maður sé á hægri eða vinstri kantinum eða í miðjunni, tæknilegar útfærslur á þessum atriðum voru bara einfaldlega alls ekki í lagi. Aðalheiður Jóhannsdóttir, virtur fræðimaður úr Háskóla Íslands sem hefur unnið náið með ráðuneytinu núna að breytingartillögum, benti á að t.d. útfærslan á varúðarreglunni gengi einfaldlega ekki upp eins og hún væri sett fram í núverandi lögum. Það eru þessir hlutir sem verður að laga.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór fyrir minni hlutanum gagnvart mér a.m.k. í þeim samræðum sem við áttum í umhverfis- og samgöngunefnd á sínum tíma. Ég veit að hún fékk bágt fyrir frá einhverjum sem töldu sig vera á umhverfiskantinum í stjórnmálaumræðunni, en ég held að hún hafi séð réttilega að það skiptir öllu máli að vanda vel til verka og reyna af fremsta megni að ná sátt í þessu máli.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur hér áðan og ég heyrði ekki betur en að hún kæmi inn á það að um suma hluti er mjög erfitt að ná sátt. Ég hlustaði líka á ræðu hennar hér um rammaáætlun og ég gat ekki betur skilið þá ræðu en að hún segði að það þyrfti að vera ósátt í þessum málaflokki. Ég held að hún hafi eytt nokkuð mörgum orðum í það, og ég rakti það í ræðu minni, það ætti bara að vera ósátt í þessum málaflokki. Ég er því algerlega ósammála.

Hv. þm. Róbert Marshall sagði í ræðu sinni að í vor hefði ég ekki beitt mér fyrir sátt í þessu máli. Bíðum nú við, eru það sanngjörn ummæli? Nei, alls ekki. Málið hefur verið á forræði ráðuneytisins. Við höfum varla séð hverjar breytingartillögurnar voru. Átti þá formaður umhverfis- og samgöngunefndar að kalla stjórnarandstöðuna til enn einu sinni til að sjá og ræða hvað? Þetta var alger vitleysa.

Ég var mjög hugsi þegar stjórnarandstaðan kom hér upp og sagði að hún hefði gefið eftir rétt sinn til að tala. Ég held að hún hafi aldrei gefið eftir rétt sinn til að tala. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að ef við gefum okkur svona þröng tímamörk þá muni einmitt rétturinn til að tala mikið í þessu máli eins og mér sýnist að stjórnarandstaðan sé nú að boða fyrir fram verða skertur. Ég held að það væri miklu nær að nefndin hefði bara góðan tíma, tæki sér góðan og fínan tíma alveg eins og hún gerði fyrir um ári síðan þegar samkomulagið náðist án allra tímamarka til þess einmitt að þegar málið kæmi fram fengju þingmenn fullkomið næði til að ræða þessi mál. Það er aðalatriðið.

Ég vil svo vísa því algerlega á bug að ekki hafi verið gott samstarf á milli ráðuneytisins og nefndarinnar. Mér finnst illa vegið að þeim starfsmönnum umhverfisráðuneytisins sem hafa lagt sig alla fram um að kalla til alla umsagnaraðila, alla þá sem hafa eitthvað um þetta mál til sín og reynt að vinna að því faglega. Mér er til efs eins og hæstv. umhverfisráðherra að það hafi nokkurn tíma hér á Alþingi áður verið gefinn jafn rúmur tími. Hvað skyldi það nú vera einna helst sem stjórnarandstaðan er óánægð með? Jú, að málið skyldi hafa verið sett á vef ráðuneytisins og kallað eftir umsögnum. Ég held einfaldlega að það hafi verið mjög faglega að verki staðið og í fullu samræmi við það samkomulag sem var gert innan nefndarinnar. Hv. þm. Róbert Marshall sagði reyndar í ræðu sinni, um leið og hann gagnrýnir þetta, að þetta væru jákvæð vinnubrögð en það hafi einfaldlega komið honum svo mikið á óvart. Þess vegna var hann ósáttur við það og mér skildist á hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að þetta hefði verið einhvers konar brot á samkomulaginu. Hvernig geta áframhaldandi fagleg vinnubrögð verið brot á því samkomulagi sem var gert innan nefndarinnar fyrir rúmu ári síðan? Hvernig getur það verið? Ég get ekki betur séð en hér sé verið að vinna áfram faglega að málinu. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði hér að ég skildi samkomulagið þannig að það ætti að fresta þessu máli. Mér kom mjög á óvart, ég er reyndar staddur hér með tvo þingflokksformenn í nefndinni minni, að það skyldi einfaldlega vera rætt að gera það ekki. Er ekki málið að við gefum okkur áfram tíma? Það er ekki víst að við náum sáttum um einstök atriði. Það er ekki víst að við náum sáttum um varúðarregluna eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom hér inn á. Hún telur að það sé verið að draga úr vægi hennar. Ég hef reyndar sagt að það eigi að koma almenn regla, í stjórnarskrá líkt og í Noregi, ég er fylgjandi því. Ég hef margítrekað sagt það úr þessum ræðustól. Ég held að það væri mjög gott. Og að sjálfsögðu, svo ég svari nú hv. þm. Andrési Inga Jónssyni sem kom með alls konar samsæriskenningar um að ekki hefði staðið til að klára málið, held ég að hann ætti frekar að kynna sér þá vinnu sem hefur farið fram, setja sig efnislega inn í málið og ræða það efnislega í staðinn fyrir að vera með dylgjur um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað klára málið og það sé undirliggjandi einhver annarleg ástæða. Við verðum að klára lög um náttúruna. Það er mjög mikilvægt.

Hv. þm. Mörður Árnason vann gríðarlega góða vinnu fyrir kosningarnar 2013, gríðarlega góða. Ég átti fundi með honum, fór yfir þær breytingar sem hann gerði á frumvarpinu og ég gat ekki betur séð en að vinna hans hefði skilað miklu. Við sögðum þá við kosningar að þetta mál yrði tekið upp að nýju og við það var staðið. Það var nauðsynlegt. Ég gat ekki betur séð en að menn hefðu verið ánægðir með að það skyldi þó hafa verið gert og það skyldi hafa verið rætt. Það sem ég hef áhyggjur af er að þegar menn boða það að hér verði ágreiningur, þá sé einfaldlega verið að leggja of mikla pressu á þetta mál og það finnst mér miður. Það er þess vegna sem ég ræddi það hér áðan að við ættum ekki að vera að setja einhver tímamörk. Ég mun að sjálfsögðu taka málið föstum tökum eins og áður, kalla til þá umsagnaraðila sem óskað hefur verið eftir. Það er enginn undanskilinn ef hann hefur eitthvað um málið að segja og vill koma með gott innlegg en eins og hv. þm. Róbert Marshall kom hér inn á áðan, þá nást ekki alltaf sáttir. Það er bara einfaldlega þannig. Stundum eru menn í grunninn ósammála, stundum er það rótin að þeirra pólitísku hugmyndum, pólitískri hugsun. Og hvað eigum við þá að gera? Eigum við að láta tímafrestinn eyðileggja málið? Eða eigum við einfaldlega að fá hér miklar og góðar umræður inn á Alþingi og greiða þá atkvæði? Ég sé að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kinkar kolli. Að sjálfsögðu og það er það sem ég vildi leggja áherslu á.

Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir efnislegum og góðum frágangi þessa máls innan minnar nefndar. Ég mun leita eftir sáttinni, kalla eftir samtalinu og við skulum sjá hvað dugar. Það er ekki víst að það dugi, kannski. Látum á það reyna.