144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður um þetta frumvarp, náttúruverndarlögin, þ.e. hér erum við eingöngu að ræða um frestun á gildistöku þeirra en auðvitað hefur örlítið verið farið inn í aðalefnisatriðin eða það sem helst hefur verið rætt að undanförnu.

Auðvitað er eðlilegt að formaður umhverfis- og samgöngunefndar hafi nokkrar áhyggjur af stífum ramma, að klára verkið fyrir 15. nóvember. Það er náttúrlega hann sem þarf að stýra vinnunni. Hann veit hvernig hún gengur fyrir sig þannig að það er ekkert nema gott um það að segja að hinn ágæti formaður okkar, sem er nú mikill maður sátta og samlyndis og hefur fengið fyrir það alveg sérstakt lof frá stjórnarandstöðunni hér í þingsölum, sé sá maður sem hvað best er við að eiga, hefur maður heyrt, og einmitt út af þessu máli þegar það var til umræðu fyrir rúmu ári síðan.

Frestun er eitur í mínum beinum. Allir sem til mín þekkja vita að það er ekki til að ég vilji fresta málum ef ég kemst hjá því. Ég tel stundum að það sé betra að taka ranga ákvörðun og koma henni í gegn en stöðugt vera að fresta. Mér leiðist fólk sem alltaf vill setja allt á flótta, mér beinlínis leiðist það. Þess vegna fannst mér mjög slæmt og vil að það komi hér fram, að við náðum þessu máli ekki fram núna í vor. Þess vegna var alger samhljómur hjá mér og mínu ágæta fólki í ráðuneytinu sem höfum unnið að þessu máli um að við mundum keppast að því að frumvarpið yrði tilbúið samtímis. Mig langaði mikið til að nefndin gæti þess vegna fengið frumvarpið strax eftir að við værum búin að fresta gildistökunni þannig að nefndarmönnum gæfist kostur á að lesa það yfir og vera jafnvel tilbúnir með spurningar og annað á fyrsta fundi í nefndinni til að flýta fyrir. Ég vona sannarlega að okkur takist öllum núna að vinna þannig að það náist innan þessa stífa ramma. En ég geri mér fullkomlega ljóst, og tek enn og aftur undir orð formanns umhverfis- og samgöngunefndar, að það verður mikil tímapressa sem leggur það á alla nefndarmenn að þeir vinni hratt og vel. Þeir mega samt ekki missa sjónar á meginmarkmiðinu, þ.e. að koma með góð og endurskoðuð náttúruverndarlög fyrir Alþingi.

Ég hef gaman af að leika mér að tölum og ég má til með að leyfa mér það hér. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gat um það að vinnan hefði hafist 2009 við endurskoðun á náttúruverndarlögum. Ef gildistakan nálgast núna um næstkomandi áramót eru þetta að verða þessi frægu sjö ár, þannig að ég ætla að leyfa mér að vona að næstu sjö árin verði íslenskri náttúru góð, að þetta hafi verið hin mögru ár og að fram undan séu alla vega næstu árin góð með góðum náttúruverndarlögum sem þingheimur hefur farið vel yfir.

Ég þarf ekki að hafa langa ræðu um þetta. Ég endurtek þau orð mín að ég vil standa við að reynt verði að hafa gildistökuna 15. nóvember. Breytingin þarf að fara í umhverfis- og samgöngunefnd og ég vil standa við það loforð sem ég gaf, að ráðuneytið mundi leggja mikla vinnu í það og að við mundum standa með nefndinni í því að vinna hratt og vel. Við munum gera allt sem við getum gert til að liðka fyrir því starfi. En þetta er ansi knappur tími og menn verða aðeins að fara yfir það hvort þeir sjái það sem möguleika að halda sig við 15. nóvember sem nýjan gildistökutíma.