144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

612. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem efnahags- og viðskiptanefnd flytur. Frumvarpið er mjög stutt og laggott. Það fjallar um ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar og fjölda gjalddaga, þ.e. að vörsluaðilum er heimilt að ráðstafa greiddum iðgjöldum til lánveitenda sjaldnar en á þriggja mánaða fresti enda hafi valin lán umsækjenda færri en fjóra gjalddaga á ári. Svo er gildistökuákvæði.

Þetta frumvarp er flutt vegna ábendinga lánastofnana um það að sum lán sem greiða skal með viðbótarlífeyrissparnaðarframlagi eru með færri gjalddaga en fjóra á ári og í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 40/2014, er kveðið á um að vörsluaðilar séreignarsparnaðar skuli ráðstafa greiddum iðgjöldum til þeirra lánveitenda sem umsækjendur hafa valið eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Þá segir í ákvæðinu að vörsluaðilar skuli ráðstafa iðgjöldum umsækjenda til lánveitenda á þeim tíma þegar greiðslur geta farið inn á höfuðstól valinna lána í skilum. Við gerð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 40/2014 þótti rétt að áskilja að ráðstöfun iðgjalda inn á lán umsækjenda skyldi fara fram að minnsta kosti fjórum sinnum á ári þar sem það er að jafnaði hagstæðara fyrir lántaka að fá greiðslum sem oftast ráðstafað inn á höfuðstól.

Eftir gildistöku laganna hefur komið í ljós að valin lán umtalsverðs fjölda umsækjenda hafa gjalddaga sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Að óbreyttum lögum munu því iðgjöld þeirra umsækjenda, sem óskað hafa eftir því að ráðstafa þeim inn á lán sem eru t.d. með gjalddaga tvisvar á ári, ekki geta uppfyllt kröfu laganna um að greitt sé inn á höfuðstól lána a.m.k. fjórum sinnum á ári. Ef ekkert verður að gert eru taldar líkur á því að hluta iðgjaldanna verði fyrst ráðstafað upp í áfallna vexti og verðbætur lánsins vegna framkvæmdarörðugleika hjá einstökum lánastofnunum nema lántakendur eigi frumkvæði að því að óska eftir skilmálabreytingum í formi fjölgunar gjalddaga á völdum lánum. Slíkar skilmálabreytingar hafa óhjákvæmilega í för með sér umstang og kostnað fyrir umsækjanda, vörsluaðila séreignarsparnaðarins og lánastofnunina.

Þar sem eitt af grundvallarskilyrðum laganna er að tryggt sé að iðgjöldum umsækjenda sé ráðstafað inn á höfuðstól lána er lagt til að við ákvæðið bætist að vörsluaðilum verði heimilað að ráðstafa greiddum iðgjöldum til lánveitenda sjaldnar en á þriggja mánaða fresti enda hafi valin lán umsækjenda færri en fjóra gjalddaga á ári. Með breytingunni er komið til móts við umsækjendur sem greiða sjaldnar en fjórum sinnum á ári af lánum sínum og kjósa að halda skilmálum lána óbreyttum, þ.e. fjölda gjalddaga. Rétt er að taka fram að sú heimild að greiða sjaldnar en fjórum sinnum á ári inn á höfuðstól lánanna felur í sér að þá sé að minnsta kosti greitt inn á lán á hverjum gjalddaga.“

Sem fyrr segir er þetta frumvarp flutt af efnahags- og viðskiptanefnd og nefndin er sammála um að flytja það til að greiða fyrir því að viðbótarlífeyrissparnaði sé ráðstafað með þeim hætti sem hugsað var. Nefndin leggur til að þetta frumvarp verði samþykkt í einfaldleika sínum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.