144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

562. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa velferðarráðuneytis og Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Einnig bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Jafnréttisstofu, Landssambandi eldri borgara og Siðmennt. Umsagnir sem bárust um sama mál á 143. löggjafarþingi liggja einnig fyrir ásamt nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar, sem þá kom fram.

Tilgangur frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í því skyni að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu.

Markmið tilskipunarinnar er að stuðla að jafnrétti kynjanna við kaup á vörum og þjónustu. Þannig felur tilskipunin í sér að óheimilt er að verðleggja vöru eða þjónustu á grundvelli kyns kaupanda. Tilskipunin nær ekki til vinnumarkaðar. Með frumvarpinu er lagt til nýtt ákvæði, 24. gr. a, sem felur í sér að aðgangur að eða afhending vöru annars vegar og aðgangur að eða veiting þjónustu hins vegar verði ekki hagstæðari fyrir annað kynið. Bann við slíkri mismunun mun gilda um alla þá sem útvega vörur og veita þjónustu sem býðst almenningi á almennum markaði sem og á opinberum markaði, þar með talið opinbera aðila. Má þar nefna þau lögmætu markmið sem liggja að baki því þegar athvarfi er komið á fót sem ætlað er öðru kyninu til verndar þolendum ofbeldis.

Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að hið nýja ákvæði eigi við um viðskipti á sviði fjölskyldu- og/eða einkalífs eða um málefni í tengslum við störf á vinnumarkaði. Breytingarnar munu hins vegar í einhverjum tilvikum hafa áhrif á ákvörðun tryggingafélaga um iðgjöld vegna vátrygginga, svo sem líf- og sjúkdómatrygginga. Með hinu nýja ákvæði verður bannað að byggja áhættumatsmun eingöngu á þeim þætti að um ólík kyn sé að ræða. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að lífeðlisfræðilegur munur á körlum og konum geti haft áhrif í einstaka tilfellum. Þó kemur það skýrt fram í tilmælunum að slíkur munur geti ekki átt við í tilviki meðgöngu eða fæðingar.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að það muni alltaf verða í verkahring eftirlitsaðila og dómstóla að framkvæma hið huglæga mat á því hvort lögmæt markmið réttlæta tiltekna mismunun og hvort aðferðir til að ná þeim eru viðeigandi og nauðsynlegar. Þá sjást í greinargerð ýmis dæmi úr skýrslu evrópsks samstarfsnets eftirlitsaðila á sviði jafnréttismála, en þar er fjallað um þá reynslu sem komin er á beitingu ákvæða tilskipunarinnar, þ.e. hvernig framkvæmdar- og eftirlitsaðilar með jafnrétti í hverju ríki fyrir sig túlka ákvæði hennar sem og dómstólar ríkjanna og Evrópudómstóllinn. Við umfjöllun nefndarinnar kom einnig fram að öll aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu hafa þegar innleitt efni tilskipunarinnar og var útfærslan í Danmörku og Svíþjóð með svipuðum hætti og lagt er til með frumvarpinu.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er ljóst að frumvarpið mun hafa áhrif hér á landi ef það verður að lögum og ætla má að frumvarpið muni leiða til jafnari stöðu kynjanna á tilteknum sviðum ásamt því að auka réttarvernd beggja kynja á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt fyrir utan þá breytingartillögu sem liggur frammi frá formanni nefndarinnar, og það er að 3. gr. orðist svo að lög þessi öðlist gildi 1. september 2015 og gildi einungis um samninga sem gerðir verða 1. september 2015 eða síðar. Þar sem ákvæðið mun aðeins ná til nýrra samninga eftir þann tíma teljum við að ekki sé þörf á lengri aðlögunartíma hér á landi.

Undir þetta skrifa hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, sú sem hér stendur, Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir og Vilhjálmur Árnason.