144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[15:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hvort rætt hafi verið í nefndinni um þann lýðræðishalla sem oft er í landshlutasamtökunum, sem úthluta styrkjum vegna sóknaráætlunar og fleiri. Landshlutasamtökin eða stjórnir þeirra eru yfirleitt skipaðar meirihlutafulltrúum úr sveitarfélögunum. Sem sveitarstjórnarmaður í gamla daga þá vorum við að ræða þennan lýðræðishalla, það voru ekki minnihlutafulltrúar í stjórn landshlutasamtaka, yfirleitt ekki, en það er hins vegar stjórn landshlutasamtakanna sem hefur mikið með það að gera hvernig er úthlutað úr sóknaráætlunum. Sums staðar eru þetta sérstök ráð, eins og menningarráð sem úthluta vegna menningarsamninganna. Ég velti fyrir mér hvort það hafi eitthvað verið rætt í nefndinni að huga þurfi að þessum lýðræðishalla þegar landshlutasamtökin fá aukin hlutverk og aukið vægi í stjórnsýslunni, að stjórnirnar séu þá með einhverjum hætti skipaðar bæði meirihluta- og minnihlutafulltrúum úr sveitarfélögunum sem standa að landshlutasamtökunum.