144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[15:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög góð ábending. Því miður kom þessi vinkill á málinu ekki til umræðu í atvinnuveganefnd. Þetta er stórmál því að auðvitað skiptir aðkoma pólitískt kjörinna fulltrúa að útdeilingu þess fjármagns sem kemur til landshlutasamtakanna til ráðstöfunar gífurlega miklu máli. Þetta eru oft og tíðum umtalsverðir fjármunir sem skiptir máli hvernig farið er með. Eins og hv. þingmaður nefnir er oftar en ekki sterkur pólitískur meiri hluti í stjórn landshlutasamtakanna og ég hafði kannski ekki hugsað það til enda að aðkoma minni hluta hverju sinni væri ekki tryggð þegar verið væri að ráðstafa fjármunum. Þetta er að sjálfsögðu mismunandi, eins og til dæmis með menningarsamninga þar sem auglýstir eru styrkir og stjórn yfir því til að úthluta og ýmislegt þannig. Ég tel alveg rétt að fara yfir þá þætti sem varða það hvernig fénu er útdeilt, að það nýtist sem best og að tryggð sé aðkoma þvert á flokka, því að tryggja verður lýðræðisleg vinnubrögð í þeim efnum. Í fjárlaganefnd eru auðvitað fulltrúar allra flokka að vinna að tillögum til fjárlaga og þótt menn greini á hefur minni hlutinn möguleika á að gera tillögur til breytinga sem auka og styrkja lýðræðislegar fjárveitingar.