144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, með síðari breytingum frá atvinnuveganefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Grundarfjarðarbæ, Orkubúi Vestfjarða, Rúnari Lárussyni, Samorku, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum.

Með frumvarpinu er lagt til að lokið verði við að innleiða breytingar sem starfshópur þáverandi iðnaðarráðuneytis lagði til í skýrslu frá desember 2011. Vinna starfshópsins hófst í kjölfar samþykktar ríkisstjórnarinnar 5. apríl 2011 um að unnið yrði að því með Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna kostnað við húshitun. Nokkrar tillögur starfshópsins hafa þegar komið til framkvæmda. Lagt er til að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma.

Við meðferð málsins kom fram það viðhorf að einnig bæri að niðurgreiða kostnað við hitun opinberra bygginga á köldum svæðum. Nefndin bendir á að kostnaður við slíka breytingu hafi ekki verið metinn nákvæmlega en gróflega áætlað er hann talinn geta numið allt að tvöföldum kostnaði við niðurgreiðslur samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum.

Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu sem felst í því að breyta orðinu ,,olía“ í „eldsneyti“ á tveimur stöðum til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem fram kemur hér á skjalinu.

Undir nefndarálit þetta rita hv. þingmenn Kristján L. Möller, framsögumaður, Jón Gunnarsson, formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Róbert Marshall, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.