144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði í skeleggri ræðu en stuttri. Hún kallar þetta bútasaum. Hv. framsögumaður málsins á sínum tíma kallaði þetta reddingu. Enn einn þingmaðurinn kallaði þetta skítareddingu sem við erum að samþykkja hérna. Ég hef lýst því yfir að ég samþykki þetta frumvarp. En mér finnst hins vegar sem hæstv. ráðherra hafi eytt fullmiklum tíma í nánast ekki neitt á sínum tíma þegar við ræddum þetta. Ég þakkaði þá hv. þingmanni og formanni þingflokks sjálfstæðismanna, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, fyrir að koma hingað í þingsal með hæstv. ráðherra. Ég og fleiri þingmenn á þeim tíma töldum ekki unnt að ljúka málinu án þess að hæstv. ráðherra gerði að minnsta kosti tilraun til að greina frá stefnu sinni varðandi málið. Þá kom tvennt í ljós. Í fyrsta lagi stefnir hann að því að ráðast í þá heildarendurskoðun sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði áðan að væri brýn þörf á, þannig skildi ég hann. Sömuleiðis lýsti hann fyrir okkur hugmynd sem út af fyrir sig var alveg prýðileg. Hún gekk út á það að stofna sérstaka einingu í Reykjavík sem væri eins konar framhaldsnám á háskólastigi fyrir framúrskarandi námsmenn. Sú stofnun yrði jafnframt í starfstengslum við framhaldsskóla á landsbyggðinni, en ég taldi hins vegar þá að það leysti með engu móti framtíðarvandann í því máli sem við höfum verið hér að reifa. Hugmynd hæstv. menntamálaráðherra er alveg prýðisgóð, en hún kemur til viðbótar við tónlistarnámið í landinu. Hún mun kalla á enn frekari framlög til tónlistarnáms og síst vil ég sýta það. Ég tel að þetta yrði afburðagott. Ég lít líka svo á að hæstv. ráðherra hafi þrátt fyrir þessa hugmynd með engu svarað því hvernig hann hyggst bæta úr þeirri stöðu sem er í tónlistarnámi til frambúðar. En í dag er staðan nákvæmlega þannig að tónlistarskólarnir vita varla þegar dregur að mánaðamótum hvort þeir hafi peninga til að greiða laun. Ég held að segja megi að ef ekki hefði komið til þessi redding, bútasaumurinn sem hv. þingmaður nefndi svo, þá stefndi í gjaldfelli, jafnvel gjaldþrot hjá fjölda skóla.

Ég vil því taka undir með hv. þingmanni sem talaði áðan að nauðsynlegt er að fara í heildarendurskoðun á þessum málaflokki. En það sem skiptir kannski mestu máli er að hæstv. ráðherra komi með stefnu hér inn í Alþingi sem þingmenn geta þá rökrætt, eftir atvikum samþykkt eða breytt og bætt. Það sem skiptir máli er að lögð sé einhver lína inn í framtíðina, þannig að við sem erum núna á næstu dögum að fara að samþykkja þetta, hugsanlega á þessum degi, stöndum ekki aftur frammi fyrir þeim bráðavanda að þurfa að ráðast í reddingar af þessu tagi sem engu okkar líkar og, eins og hv. þingmaður sem mælti fyrir frumvarpinu sagði, bjargar bara málunum í nokkra mánuði.