144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þreytist seint á því að tala um það sem er að hér á hinu háa Alþingi vegna þess að ég tel það vera mjög beintengt því sem er að í okkar annars ágæta samfélagi. Og það er skortur á samráði við þjóðina og skortur á virðingu fyrir sjálfsákvörðunarréttinum. Við erum hér samankomin einungis vegna þess að við erum kjörin af fólkinu í landinu, ekki vegna þess að guð útnefndi konung sem útnefndi ríkisstjórn sem útnefndi þing sem útnefndi þjóð. Það var ekki þannig.

Því miður höfum við ekki lokið því ferli sem það var að hætta að vera konungsveldi og verða að raunverulegu lýðveldi. Til þess að gera það, til þess að verða að lýðveldi þar sem valdið sprettur raunverulega frá þjóðinni, þurfum við að ljúka því verki sem hófst á fyrri parti 20. aldar, sem var að semja nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland þar sem valdið kemur frá þjóðinni en ekki upprunalega frá guði því að stjórnskipunin sem við höfum núna ber þess öll merki.

Ég vil taka sem dæmi að ég var í kjörbréfanefnd þegar ég var nýkjörinn inn á þing. Þar fórum við yfir kærur o.s.frv. Þá grunaði mig og taldi reyndar að hlutverk kjörbréfanefndar væri að ógilda kosningar ef illa færi með þær. Svo kemur í ljós að svo er ekki. Þessi kjörbréfanefnd er komin frá Danmörku til þess að sýna konunginum í Danmörku að það sé þingið sem ákveði gildi kosninga en ekki konungurinn.

Þetta endurspeglast að mínu mati í allri stjórnsýslunni og í því hvernig Ísland virkar í grundvallaratriðum, jafnvel hvernig þingsetning er. Við erum í reynd konungsveldi sem kýs konung á fjögurra ára fresti frekar en lýðveldi þar sem valdið í grundvallaratriðum kemur frá þjóðinni sjálfri. Við eigum að ljúka ferli okkar til sjálfstæðis með því að hefja á ný umræðuna sem hófst skömmu eftir hrun um nýja stjórnarskrá, umræðu sem hófst reyndar þegar sú sem er í gildi núna var fyrst samþykkt af þjóðinni.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.