144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í ljósi þess að Evrópusambandið hefur verið að hvetja grísku þjóðina til þess að fara gegn vilja forsætisráðherra landsins langar mig að lýsa yfir stuðningi við grísku þjóðina og hvetja hana til þess að fylgja hjarta sínu í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem mun eiga sér stað fljótlega. Mér finnst vert að minnast þess að sömu aðilar og studdu okkur Íslendinga, þegar við vorum að berjast í bökkum og vorum í áfalli í því mikla hruni sem gekk yfir okkur, hafa lýst yfir stuðningi við grísku þjóðina, aðilar eins og Stieglitz og Krüger og margir fleiri.

Við þingmenn, sem höfum þurft að horfa upp á hvernig hefði getað farið fyrir okkur og höfum fengið tækifæri til að vinna úr mjög erfiðum tímum á þann veg að við erum að rísa upp, eigum að styðja við aðrar þjóðir og sér í lagi Grikkland sem hefur verið farið mjög illa með af troikunni svokölluðu, þar sem velt hefur verið yfir á axlir almennings gríðarlega miklu skuldabákni sem farið er fram á að greitt verði til baka með því að efna til enn frekari skulda sem er auðvitað fjarstæðukennt.

Mig langar líka að minna á, þegar fólk talar um að Grikkir séu latir og skattasvindlarar, að fólk kynni sér málin almennilega. Það er hægt að finna mjög mikið af góðum greinum á veraldarvefnum ef maður leitar eftir því. Ég vona að fólk hafi vit á því að gleypa ekki allar fyrirsagnir stóru fjölmiðlanna án þess að hafa gagnrýna hugsun.

Ég vil minna á það að flóttamenn hafa flætt yfir Grikkland sem enginn (Forseti hringir.) hefur verið til í að taka á móti. Stöndum með grísku þjóðinni, öll sem eitt.