144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég heyrði einu sinni sögu af íslenskum stjórnmálamanni sem bað um úttekt og þegar hann fékk hana í hendur þá sagði hann: Þetta er ekki niðurstaðan sem ég bað um. Ég veit ekki hvort þessi saga er sönn, en viðbrögð vinstri minni hlutans hér á þingi við skýrslunni sem kom í gær minna mig pínulítið á þessi viðbrögð.

Skýrslan leiðir í ljós, eins og ég sagði hér áðan, að skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar var dæmalaust vel heppnuð (Gripið fram í.) og kemur dæmalaust vel niður. (Gripið fram í.) Nú ætla ég ekki að grípa í það sem menn hafa gert hér þegar þeir segja hver öðrum að þegja, ég ætla nú ekki að gera það, en þetta er almenn aðgerð eins og fram hefur komið. Almenn aðgerð hefur það í för með sér að það verða hópar sem við getum sagt, ef það er okkar skoðun, að þurfi ekki nauðsynlega á þessu að halda, í þessu tilfelli 2% — áttu hin 98% að gjalda fyrir það? Nei, alls ekki. Þegar þessi aðgerð kom fyrst til þá fóru menn að leita að þeim sem ekki fengu lausn. Leigjendur fengu til dæmis ekki lausn af því að þeir voru ekki með húsnæðisskuldir, alveg eins og reiðhjólamenn græða ekki á bensínlækkun. Það er bara svoleiðis.

Það er almenn aðgerð bara eins og þegar maður hækkar persónuafslátt, þá kemur persónuafslátturinn örugglega í hendur þeirra sem þurfa ekki nauðsynlega á því að halda af því að um er að ræða almenna aðgerð, en hún hjálpar mest þeim sem lakast standa. Þessi aðgerð hér hjálpar meðaltekju- og lágtekjufólki eins og ég sagði hér áðan, eins og tveimur BSRB-félögum sem búa saman, eins og tveimur BHM-félögum sem búa saman, eins og tveimur ASÍ-félögum sem búa saman. Þetta er einmitt fólkið sem þarf á því að halda að fá viðspyrnu og er sem betur fer búið að fá viðspyrnu og hefur nú tækifæri til þess að bæta hag sinn enn frekar. Síðan eru náttúrlega aðrar ráðstafanir sem ríkisstjórnin er að gera, samanber skattalækkanir og annað, sem koma einnig til með að hjálpa þessum hópi.