144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Nú þegar líður að þinglokum þá eru fleiri en færri sem velta fyrir sér lærdómum þessa þings sem er núna að ljúka. Sífellt fleiri forustumenn ríkisstjórnarflokkanna koma nú fram og segja að endurskoða þurfi þingsköp, það séu okkar helstu lærdómar að það þurfi að skerða málfrelsið, að það þurfi að draga úr möguleikum fólks til að tala.

Mér finnst mikilvægt að við öll saman stöldrum við og drögum sameiginlega lærdóma fyrir lýðræðið og þingræðið. Þeir lærdómar eiga að vera þeir að nóg sé komið í meirihlutaræði á Íslandi. Nú séum við komin þangað, við höfum öll áttað okkur á því, að hefðbundinn tuddaskapur í krafti meiri hluta atkvæða er liðin tíð. Þetta er aðferðafræði sem á að heyra sögunni til. Þetta er niðurlægjandi, bæði fyrir þá sem fyrir því verða, fyrir kjósendur, fyrir minni hlutann. Það er líka niðurlægjandi fyrir meiri hlutann að beita afli til að koma málum í gegn sem eru borin fram í ófriði.

Ég vil nefna mál eins og breytingartillögu við rammaáætlun. Ég vil nefna mál eins og makrílinn. Ég vil nefna mál eins og niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar, Evrópusambandsmálin, skilyrðingar við fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna og fleiri mál sem hafa verið borin fram í ófriði og rekin til baka þess vegna, af lýðræðislegu afli sem er réttkjörið á Alþingi Íslendinga og hefur nýtt þingsköp til að brjóta meirihlutavald í mörgum vondum málum á bak aftur og það á að vera lærdómurinn að meiri hlutinn á að láta af þessum vinnubrögðum.