144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég verð alltaf hálfsorgmædd og leið þegar ég heyri formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, tjá sig um ríkisfjármálin og stöðu þeirra bæði á síðasta kjörtímabili og nú. Það er eins og hv. þingmaður átti sig ekki á þeirri fordæmalausu stöðu sem við vorum í á síðasta kjörtímabili, enda var hún hér eins og gjammandi hælbítur á meðan við vorum að krafsa okkur út úr þeim aðstæðum. En lokafjárlögin sem við ræðum núna við 3. umr. bera vitni um þann árangur sem við náðum. Það er rétt að við þurftum að skera niður og það er rétt að við þurfum að hækka hér gjöld, en sú leið sem farin var var að skera þannig niður að þeir sem þurftu á þjónustu ríkisins að halda þyrftu ekki að bera þyngstu byrðarnar, og hækka skatta þannig að það gengi ekki fram af einstaklingum og fyrirtækjum. Það voru ríkisstarfsmenn sem sáu til þess að hagræðingin var með þeim hætti að hægt var að halda uppi þjónustu, þeir sömu ríkisstarfsmenn og sett hafa verið lög á hér þegar þeir báðu um kjarabætur. Og hv. þingmaður ætlar væntanlega að samþykkja það í ríkisfjármálaáætluninni að ef ríkisstarfsmenn fá meira en 2% kaupmáttaraukningu verður skorið niður í velferðarkerfinu á móti.

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega ósammála því sem hv. þingmaður sagði hér um opinber fjármál. Þetta er frumvarp sem unnið var af fjórum fjármálaráðherrum og mikil sátt er um. Það var einfaldlega ekki tilbúið. Við buðum fram sumarvinnu og guð má vita hvað til að koma á móts við fólk þannig (Forseti hringir.) að hægt væri að vinna það betur, en það hins vegar var ekki þegið vegna þess að hv. þm. (Forseti hringir.) Vigdís Hauksdóttir þurfti endilega (Forseti hringir.) að búa til ágreining eins og hún gerir þegar hún mögulega getur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)