144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þær tvær mínútur sem ég hef í andsvari við hv. þingmann munu ekki duga til að leiðrétta þær rangfærslur sem hv. þingmaður fór með. Auðvitað er gagnrýni góð ef verið er að rýna til gagns, en ekki ef verið er að henda hér á lofti alls konar bulli og vitleysu — fyrirgefðu herra forseti, þó að ég taki svona til orða eftir ræðu og andsvar hv. þingmanns.

Bara svo það sé sagt langar mig að benda á eitt varðandi það sem hv. þingmaður sagði í umræðu um málið, þ.e. að minnihlutafulltrúarnir og stjórnarandstaðan í hv. fjárlaganefnd hefðu setið hjá við afgreiðslu lokafjárlaga 2012 vegna þess að við hefðum ekki haft trú á ríkisfjármálum það ár. Ég vil að það komi skýrt fram hér, herra forseti, að við sátum hjá vegna þess að frumvarp um lokafjárlög fyrir árið 2012 var ekki unnið í nefndinni. Við báðum um fleiri fundi. Við vorum með einar 45 spurningar sem ósvarað var þegar frumvarpið var rifið út úr nefndinni í fullkomnu ósætti, við gátum hreinlega ekki annað en setið hjá vegna þess að við höfðum ekki fengið svör við þeim spurningum. Þetta er allt saman bókað og er hægt að lesa um það á vef fjárlaganefndar. Ég hvet fólk til þess að gera það sem heldur að einhver önnur ástæða hafi verið fyrir hjásetu við lokafjárlög 2012 en handvömm og léleg verkstjórn í fjárlaganefnd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)