144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er öllu orðvarari í garð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann er í salnum en hún var hérna um daginn þegar hún dengdi yfir hann fjarstaddan svívirðingum og þingmenn þurftu að koma til þess að verja hann fjarstaddan. Það var ekki mjög drengilega gert hjá hv. þingmanni. Ég rifja það upp að hv. þingmaður kallaði mig þá meðal annars fulltrúa ríkisstjórnar kröfuhafa. Hvað finnst hv. þingmanni um frammistöðu núverandi ríkisstjórnar? Nú er að koma í ljós að undir forustu hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er verið að gefa kröfuhöfum mesta afslátt frá markmiðum ríkisstjórnarinnar á kröfum sem hægt er að hugsa sér. Það er verið að gefa kröfuhöfum 400 milljarða afslátt. Hvað finnst henni um það? Telur hún réttmætt að ég kalli hana þá fulltrúa ríkisstjórnar kröfuhafa? Mér dettur ekki í hug að gera það.

Herra forseti. Þrátt fyrir að hv. þingmaður tali um að það hafi verið svo mikið málþóf sem hafi komið í veg fyrir að hún hafi getað unnið vinnuna sína nægilega vel þá langar mig samt að spyrja hana: Telur hún að það séu ekki réttmætar athugasemdir hjá mér og um daginn hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að kannski sé kominn tími til þess að lokafjárlög verði sett fram þannig að maður skilji hlutina sæmilega? Eins og kom fram í þeirri umræðu kemur samtalan fram þar sem er verið að hliðra til en maður sér ekki tölur á bak við einstaka liði.

Ég spurði líka hv. þingmann í fyrri umræðu, sem hún náði ekki að svara því að hún var svo önnum kafin við að dengja yfir salinn svívirðingum um fjarstadda menn og aðra, með hvaða hætti hún teldi að það ætti að bregðast við þegar fram kemur, eins og dæmi eru rakin um í nefndarálitinu sem hún hafði framsögu fyrir, að einstök verkefni eins og hjúkrunarheimili austur á fjörðum fara margfalt fram úr áætlun þar sem lokaútgjöldin eru mörgum (Forseti hringir.) sinnum meiri en áætlunin var. Hvernig bregst hv. þingmaður við? Ég sé enga (Forseti hringir.) breytingartillögu í áliti hv. þingmanns.