144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:57]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst leiðinlegt ef hv. þingmaður hefur tekið það sem einhverjum skammaryrðum í garð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar ég var að hrósa honum fyrir að það væri eftirspurn eftir honum í Grikklandi. Hann sagði það sjálfur að hann hefði nánast verið beðinn um að fara þangað til að bjarga Grikkjum. Það væri kannski öðruvísi ástandið í Grikklandi og hefði ekki þurft að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu ef það hefði orðið að veruleika. Ég vil vísa í þau orð en annars hef ég ekki rætt um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þó að hann sitji í þingsalnum nú vegna þess að hann hefur hreinlega ekki verið til umræðu fyrr en hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór sjálfur að tala um hann.

Virðulegi forseti. Það fór afskaplega fyrir brjóstið á hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þegar ég sagði að fyrri ríkisstjórn hefði verið ríkisstjórn kröfuhafa. Það var verið að sækja um aðild að ESB. Það átti að koma Icesave yfir á herðar þjóðarinnar. Það var gefið allt eftir varðandi kröfuhafana. Það var ekki farið í skuldaniðurfellingartillögu Framsóknarflokks á síðasta kjörtímabili, sem hefur komið á daginn að allt stóðst. Það var farið í 110%-leiðina þannig að þeir sem skulduðu mest fengu niðurfelldar stórfelldar skuldir. Svo koma þessir sömu þingmenn hingað dag eftir dag og gagnrýna hina altæku skuldaniðurfellingarleið sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fór fyrir og sýndi að var framkvæmanleg og tók þessa peninga af þrotabúunum og það er vel. Loksins náði réttlætið fram að ganga.

En varðandi það, virðulegi forseti, þá sé ég ekki muninn á ríkisstjórn kröfuhafanna og að kalla stjórnvöld ríkisstjórn ríka fólksins eins og var fundið upp niðri í Túnum og Samfylkingin tileinkaði sér. Ríkisstjórn ríka fólksins — er það ekki (Forseti hringir.) samsvarandi skammaryrði og ríkisstjórn kröfuhafanna? Eru það ekki kröfuhafarnir (Forseti hringir.) sem eru ríka fólkið?