144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er skaði að hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, skuli rigsa úr salnum þegar hún hefur gefið hér nokkurt tilefni til umræðna, satt best að segja, en ég hirði lítt um það. Ég verð því miður að vara virðulegan forseta við, ég neyðist til að segja nokkur orð í tilefni af málflutningi hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan. Kannski er það óþarflega lengi búið að líðast að hv. þingmaður geti bullað og farið með fjarstæður endalaust án þess að henni sé svarað. Það er ekki hollt fyrir lýðræðið og þingræðið að láta slíkt viðgangast of lengi.

Ég skal alveg viðurkenna að sem ráðherra í síðustu ríkisstjórn þá þagði ég oft og tók við ýmsu án þess að svara því, taldi það einfaldlega skynsamlegt og manni var annt um þau mál sem þurftu að fá afgreiðslu á þinginu þannig að maður lét ýmislegt yfir sig ganga, þar á meðal frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, ítrekuð landráðabrigsl sem forsetar gerðu reyndar aldrei athugasemdir við, merkilegt nokk, og ég svaraði sjaldnast eða aldrei vegna þess að ég taldi það ekki þjóna tilgangi. Ég á því kannski pínulítið inni gagnvart því, virðulegur forseti, að verja aðeins hendur mínar og þeirrar ríkisstjórnar sem ég var í forustu fyrir ásamt með hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, á sínum tíma þegar fjallað er um verk hennar með þeim hætti sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerði hér.

Ég ætla ekki að elta ólar við það sem hv. þingmaður sagði að mér fjarstöddum hér í síðustu viku. Bara til að taka það fram, virðulegur forseti, þá var ég ekki að skrópa í vinnunni, ég var sem fulltrúi í Norðurlandaráði og varaformaður efnahagsnefndar Norðurlandaráðs á fundum hennar í Kaupmannahöfn og vinnuheimsóknum á Sjálandi og Skáni.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hélt því blákalt fram að grunnbætur almannatrygginga hefðu verið skertar um 16 milljarða á síðasta kjörtímabili. Það er rangt. Grunnbætur almannatrygginga voru ekki skertar. Þvert á móti var afkomutrygging varin óskert og atvinnuleysisbætur varðar óskertar í gegnum alla kreppuna. Hitt er rétt að þeir sem höfðu aðrar tekjur en tekjur frá almannatryggingakerfinu urðu að sæta því að skerðingarhlutföll bótagreiðslna vegna þeirra tekna voru hækkuð á nýjan leik og í raun færð aftur til þess sem þau voru fram á árið 2007, enda vorum við ekki eins rík og við héldum þá þegar þau skerðingarhlutföll voru sérstaklega lækkuð.

Það er auðvitað dapurlegt og í sjálfu sér ætti það að vera áhyggjuefni, virðulegur forseti, ekki nema ef við værum orðin ónæm fyrir því, að formaður fjárlaganefndar fer með þvílíkar staðleysur aftur og aftur og endurtekið að maður hefur auðvitað vissar áhyggjur af málaflokknum í höndunum á þingmönnum eins og hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem annaðhvort veit ekki betur eða telur það engan ábyrgðarhlut að fullyrða tóma fjarstæðu hér úr ræðustól á Alþingi. En við það búum við eins og þetta dæmi sannar sem ég var að fara yfir áðan, og mér til ánægju kinkar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra kolli og staðfestir með því, að ég tel, að ég var að segja hér rétt og satt frá.

Þá kom að því sem hv. þingmaður sagði um ríkisfjármálin og hina miklu stefnubreytingu í þeim efnum sem hefði orðið með tilkomu núverandi ríkisstjórnar. Hv. þingmaður sagði að þá hefði markið verið sett á hallalaus fjárlög, já, með tilkomu núverandi ríkisstjórnar. Ekkert gæti verið meiri fjarstæða, ekkert gæti verið meira bull en að halda því fram að markið hafi fyrst verið sett á hallalausan ríkisrekstur með tilkomu þessarar ríkisstjórnar. Aftur verður maður að spyrja: Veit hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir ekki betur? Er hún svona skelfilega illa upplýst um það sem var í gangi hér á síðasta kjörtímabili og frá hruni? Eða er bara alveg sama hvað hún segir, þótt hún sé formaður fjárlaganefndar og hv. þingmaður, úr ræðustóli á Alþingi?

Staðreyndin er sú, sem allir ættu að vita og þurfa í raun og veru að vita því að þetta er ein samfelld saga, að markið var sett á hallalaus fjárlög, um það bil hallalaus fjárlög árið 2013 í júní 2009. Í júní 2009 birtist fyrsta ríkisfjármálaáætlunin til meðallangs tíma, og hún hafði tvö meginmarkmið hvað þetta varðar, tvö meginviðmið. Það var jákvæður frumjöfnuður á árinu 2011 og heildarjöfnuður í jafnvægi árið 2013. Samkvæmt þessu var unnið og það náðist. Árið 2011 var þetta skoðað og lítillega mýkt þannig að menn sögðu að á árinu 2013 væri nóg að ná um það bil jöfnuði, og afgangi settu menn sér ekki að ná fyrr en á árinu 2014. Það hvort tveggja gekk eftir. Markmið upphaflegrar ríkisfjármálaáætlunar sem er samin í svartnætti hrunsins, í svartholi hrunsins, náðist. Ég spái því, herra forseti, að það muni síðar meir á spjöldum sögunnar þykja athyglisvert. Það hefur vakið feiknalega athygli utan landsteinanna hvernig Íslandi tókst að snúa sínum opinbera búskap við á svona fáum árum úr svona djúpri kreppu og vondri stöðu sem raun bar vitni.

Nú er ég ekki viss um að ég muni allar tölurnar lengur því að ég rifja þær kannski ekki upp daglega eins og hérna einu sinni, en í grófum dráttum var þetta þannig að árið 2008 var ríkissjóður Íslands gerður upp með 217 milljarða halla á þágildandi verðlagi, 240, 250 milljarðar giska ég á í dag. Það voru rétt um 14% af vergri landsframleiðslu. Á árinu 2009 var hallinn 140 milljarðar á þágildandi verðlagi, nálægt 10% af vergri landsframleiðslu, 120 eða 123 árið 2010, um 7%, um 80 2011, 35 2012 og um það bil núll 2013. Svona er þessi saga. Þetta eru staðreyndirnar, herra forseti. Þetta er ríkisreikningur. Menn mega svo sem rífast um hann, en hann birtir okkur þessa mynd.

Ég þekki þess engin dæmi að hagkerfi og ríkissjóður í vanda sambærilegum við Ísland, eða minni, hafi náð slíkum viðsnúningi á svona fáum árum, þar sem menn eru gjarnan að setja sér það að ná kannski niður hallanum sem nemur hálfu til einu prósenti af landsframleiðslu á hverju ári. En hér var þetta tekið í stórum skrefum, skilaði okkur því að ríkisbúskapurinn var um það bil hallalaus á árinu 2013, við vorum sem sagt hætt að safna skuldum, og síðan vel að merkja er ágætisafgangur sem núna er að birtast okkur í ríkisreikningi fyrir 2014, að vísu að verulegu leyti borinn uppi af óreglulegum liðum og einskiptishvalrekum fyrir ríkissjóð eins og mjög háum arðgreiðslum úr bönkum og annað í þeim dúr, en engu að síður staðfestir það áframhaldandi bata á ríkisfjármálum. Það er fínt. Núverandi ríkisstjórn má fá allt kredit fyrir það frá mér, ég teldi reyndar að hún hefði getað gert enn betur með því að missa ekki út svona miklar tekjur (Gripið fram í.) já, já, og vonandi gengur vel áfram, en það er ein samfella frá botninum í afkomu ríkisins árið 2008 upp í gegnum allt síðasta kjörtímabil og inn á þetta. Og heyra svo formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, reyna að tala um þetta með þeim hætti sem hún gerði hér áðan, ja, öllu smærri verða menn ekki, herra forseti, í ræðustól á Alþingi, að reyna að slá algjörlega striki yfir allt sem öðrum mætti telja til tekna og hreykja sér á haug eins og hani eða hæna yfir því að allt gott sé þeim að þakka. Það er nú ekki þannig. Ummæli hennar um það hvernig síðasta ríkisstjórn hafi gefið allt eftir gagnvart kröfuhöfum o.s.frv. er ekki svaraverð, ég læt mér duga svör hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar við því. Það er auðvitað málflutningur sem er dapurlegur og kemur nú steinn úr glerhúsi þegar þingmaður úr núverandi stjórnarliði talar, eða hvað? Eigum við ekki eftir að athuga aðeins hvernig málin leggja sig hér þegar stöðugleikaskatturinn og nauðasamningafrumvarpið verður krufið til mergjar í umræðum síðar í þessari viku. Þannig er þetta nú, virðulegur forseti.

Að síðustu, af því að ekki er víst að frekari umræður verði hér um ríkisfjármál á þessu vor- eða sumarþingi, þá er hægt að gleðjast yfir því sem vel hefur gengið og í sjálfu sér fagna þeirri stöðu sem við höfum komist í í þessum efnum, það er ævintýralega mikill árangur, það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Hversu mikilvægur var hann? Jú, hann var alveg óendanlega mikilvægur fyrir framtíð velferðarsamfélagsins á Íslandi, samanber það að menn mikla nú gjarnan fyrir sér og tala mikið um háar vaxtagreiðslur ríkisins. Alveg rétt, 80 milljarðar plús/mínus í greiðslur vegna skulda ríkisins, kannski neikvæður fjármagnsjöfnuður upp á 60 milljarða kr.

En hvernig halda menn að þetta hefði orðið? Hverjar halda menn að vaxtagreiðslurnar væru í dag ef hallinn hefði ekki verið tekinn svona bratt niður og við hefðum ekki náð árangri, miklum árangri og svona hratt? Auðvelt er að setja upp dæmi þar sem vaxtagreiðslurnar væru þá öfugum megin við 100 milljarða. Svo vældu menn auðvitað eins og grísir, bæði undan sparnaðaraðgerðunum og skattahækkununum, en þær skiluðu þessu, þær komu ríkissjóði í jöfnuð á fjórum árum og þær urðu þess valdandi að vaxtakostnaður ríkisins er ekki enn meiri en ella væri. Þetta tókst að gera samtímis því að hagvöxtur gekk í garð og bati hófst almennt í efnahagsmálunum sem er nú ekki sjálfgefið, vegna þess að umfangsmiklar aðgerðir af þessu tagi eru ekki síst vandasamar vegna þess að þær geta haft neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu og hagvöxt. Þetta getur verið mjög erfið glíma að gera hvort tveggja í senn, að snúa við neikvæðri hagsveiflu yfir í bata og ná tökum á hallarekstri hins opinbera, því að upp að vissu marki vinna aðgerðirnar hvor á móti annarri. Það er bara því miður þannig. En takist mönnum að finna rétta blöndu þá er þetta hægt eins og dæmið frá Íslandi sannar.

Áhyggjur mínar í dag snúa aðallega að framhaldinu. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir taldi að gríðarleg stefnubreyting hefði orðið með tilkomu núverandi ríkisstjórnar í ríkisfjármálum. Í hverju fólst hún? Í því að fara úr hallarekstri og yfir í afgang? Nei, það var ákveðið 2009. Ef eitthvað er þá er stefnubreytingin sú með tilkomu þessarar ríkisstjórnar eins og hún birtist okkur m.a. í ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára sem nú er fyrir þingi, að batanum lýkur og menn ætla að sætta sig við að ríkissjóður haldi í horfinu næstu þrjú til fjögur árin. Það er áhyggjuefni. Það verður enginn teljandi afkomubati hjá ríkinu næstu þrjú árin að minnsta kosti miðað við þá ríkisfjármálaáætlun frá ríkisstjórninni sjálfri sem fyrir liggur. Það er mikið áhyggjuefni. Það er ólíku saman að jafna við hin stórstígu skref á hverju ári sem tekin voru til batnandi afkomu upp í gegnum allt síðasta kjörtímabil.

Það skyldi nú ekki fara svo, því miður, herra forseti, að óbreyttum áherslum hvað varðar tekjuöflun ríkisins og eftir atvikum útgjöld, að á árinu 2014 snúist þetta við og við eigum eftir að sjá verri afkomu á ríkissjóði á árinu 2015 og árin sem í hönd fara heldur en 2014? Það er það sem mér þetta sýnist stefna í, því miður, og það er mikið áhyggjuefni.